137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

Ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[14:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og stundum áður er mér svara vant af því að þetta var ekki andsvar heldur meðsvar. Ég tek undir með hv. þingmanni og held að alveg sé ástæða til þess, af því að við erum að gera ýmislegt í þjóðfélaginu til þess að spara og gera kerfin einfaldari, að setja þetta gjald ásamt gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra inn í persónuafsláttinn. Það kemur nákvæmlega eins út fyrir einstaklinga.

Varðandi unga fólkið og þá sem eru undir skattleysismörkum, þá er gert ráð fyrir því í gjaldinu að þeir sem eru undir skattleysismörkum borgi ekki þetta gjald og ekki heldur í Framkvæmdasjóð aldraðra, þannig að segja má að þeir séu varðir, t.d. unglingar sem búa heima hjá foreldrum sínum. En ef þeir fara eina krónu umfram borga þeir allt í einu 19 þús. kr. í útvarpsgjaldið og síðan 6 eða 7 þús. kr. í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þeir geta borgað 25 þús. kr. fyrir þessa einu krónu sem þeir höfðu í tekjur umfram mörkin. Þau áhrif mundu hverfa ef menn hefðu þetta inni í persónuafslættinum, þá kemur þetta ekki upp.

Ég er því hlynntur því að hv. þingmaður leggi til að þetta verði tekið inn til nefndar milli umræðna og nefndin hugi virkilega að því að gera breytingar á tekjuskattslögunum og lækka persónuafsláttinn.