137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

Ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[14:19]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Við erum að fjalla um ákveðnar formbreytingar, að breyta gjalddögum útvarpsgjalds, að þeir fari úr því að vera einn niður í þrjá hjá einstaklingum en að hjá lögaðilum verði áfram einn gjalddagi.

Þegar maður situr í nefndum þingsins lærir maður alltaf eitthvað nýtt og kannski getum við sagt að einna helst hafi maður lært við meðferð þessa máls að það er hægt að setja skatt í greiðsludreifingu hjá bönkunum. Þetta þyrfti kannski að benda almenningi á því að þetta kom mörgum nefndarmönnum svolítið á óvart — talandi um áhugaverða þjónustu hjá bönkunum.

Þegar hefur komið fram hérna, í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals, að fyrir lágu aðrar hugmyndir um hvernig væri hægt að innheimta þennan skatt. Ég verð að segja sem nýr fulltrúi í menntamálanefnd að mér finnst slæmt að við skyldum ekki ræða þetta aðeins frekar, ræða aðeins víðar hvort það sé rétta leiðin sem við leggjum til, þ.e. að þetta verði rukkað sérstaklega Mér þætti mjög áhugavert ef við gætum tekið það upp í nefndinni á milli 2. og 3. umr.

Ég verð líka að segja að hef svolitlar áhyggjur af Ríkisútvarpinu. Mikill halli hefur verið á rekstri þess og mikil fór vinna fram í þinginu þegar sem við vorum að búa til nýja löggjöf um RÚV. Eitt af því sem ég man eftir frá því þegar ég kom sem varamaður inn í menntamálanefnd var sú áhersla sem var lögð á að réttlætingin fyrir því að ríkið ræki útvarp væri sú áhersla sem stofnunin eða þetta opinbera hlutafélag ætti að leggja á íslenskt sjónvarpsefni og það ætti að vera í forustu fyrir gerð þess. Ég verð að segja að síðan þá hef ég ekki séð miklar breytingar verða á sjónvarpsdagskránni hjá RÚV og ég mundi telja að hæstv. menntamálaráðherra, með sinn bakgrunn í bókmenntum, hefði mikinn áhuga á hvernig RÚV getur raunverulega sinnt þessu forustuhlutverki og verið í forsvari fyrir íslenska menningu í gerð sjónvarpsefnis.

Við getum nefnt sem dæmi Silfur Egils, það er þáttur sem ég held að við stjórnmálamenn flestir horfum gjarnan á, sá þáttur á ekki uppruna sinn hjá RÚV. Sama má segja um Popppunkt, sem er mjög áhugaverður spurningaþáttur um tónlist. Oft virðast hugmyndir verða til hjá öðrum sjónvarpsstöðvum, hjá hinum einkareknu sjónvarpsstöðvum, og þegar viðkomandi sjónvarpsþáttur eða þáttastjórnandi er búinn að sanna sig er hann keyptur yfir til RÚV. Ég held að það sé ekki sú hugmyndafræði sem við lögðum upp með við þessa vinnu innan menntamálanefndar. Þar var núverandi hæstv. menntamálaráðherra einmitt mjög virkur og kröftugur í gagnrýni sinni á þá löggjöf sem var verið að setja um Ríkisútvarpið.

Það sem ég á við með þessu er að við erum hér að fjalla um skatt sem er hugsaður til þess að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins. Þó að við séum fyrst og fremst að tala um að breyta gjalddögunum skiptir máli í hvað á að nota þessa peninga, að við séum sátt við hvernig viðkomandi hlutafélag, sem er í eigu hins opinbera, notar þessa fjármuni. Það er umræða sem má ekki lognast út af heldur verðum við að halda henni lifandi innan þingsins og í samfélaginu og gera kröfur. Við eigum að gera kröfur til Ríkisútvarpsins, sérstaklega í ljósi þess að verið er að leggja þennan nefskatt á núna, að vísu með þrjá gjalddaga í staðinn fyrir einn hjá einstaklingum en hjá lögaðilum verður áfram einn gjalddagi.

Þetta eru helstu athugasemdir mínar varðandi þetta mál og ég hefði mikinn áhuga á að við skoðuðum það aðeins betur á milli 2. og. 3. umr.