137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

Þessu frumvarpi er ætlað að innleiða 16. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins frá 26. október 2005, um samruna hlutafélaga yfir landamæri. Tilskipunin var að stórum hluta innleidd hér á landi með lögum nr. 54/2007, um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Í þeirri löggjöf voru ekki ákvæði um þátttökurétt starfsmanna og því er lagt til að þau verði innleidd með sérlögum. Markmið laganna er að tryggja áunninn rétt starfsmanna félaga sem verða til við samruna yfir landamæri til aðildar að málum og ákvörðunum sem varða starfsemi slíkra félaga og til að viðhalda reglum um aðild starfsmanna sem í gildi eru í þeim félögum sem taka þátt í stofnun samrunafélags. Með öðrum orðum er hér ekki verið að veita ný réttindi heldur að tryggja áunnin réttindi. Frumvarpinu er ætlað að innleiða lágmarksreglur skv. 16. gr. tilskipunarinnar.

Þau atriði sem fengu mesta umfjöllun voru réttindi starfsmanna, hugtakanotkun frumvarpsins og gildissvið þess.

Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að samræmi væri milli hugtaka og orðanotkunar í lögum nr. 27/2004 og í því frumvarpi sem við ræðum hér og tekur nefndin undir það. Nefndin leggur til þá breytingu að í stað samrunafélags komi yfirtökufélag og í stað þátttökufélags komi samrunafélag til þess að samræma þessa hugtakanotkun.

Nefndinni voru að auki kynnt þau sjónarmið að eðlilegt væri að fella brott orð eins og framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn enda slíkar stjórnir ekki til að íslenskum rétti þar sem kveðið er á um framkvæmdastjóra og stjórnir félaga. Þar sem frumvarpið kveður á um samruna yfir landamæri leggur nefndin þó ekki til breytingu á þessu enda stjórnarform fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu ekki með samræmdum hætti.

Markmið frumvarpsins er að tryggja, eins og áður sagði, áunninn rétt starfsmanna félaga sem verða til við samruna yfir landamæri. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að því sé ætlað að innleiða lágmarksreglur 16. gr. tilskipunarinnar og telur nefndin því rétt að afmarka gildissviðið nánar í 1. gr. og auka þannig skýrleika laganna. Auk þessarar breytingar leggur nefndin til smávægilegar leiðréttingar á texta. Þessar leiðréttingar eru fjórar talsins.

„1. Við 1. gr. bætist: þegar starfsmenn a.m.k. eins yfirtökufélags hafa áunnið sér réttindi til aðildar að málum og ákvörðunum sem varða starfsemi slíkra félaga.

2. Við 3. gr. a. 7. tölul. orðist svo: Millilandasamruni: Samruni þar sem samrunafélag lýtur löggjöf minnst tveggja ríkja sem eru á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar, svo og annarra ríkja samkvæmt heimild í reglugerð sem viðskiptaráðherra setur í samráði við fjármálaráðherra. b. Í stað orðsins „samrunafélag“ í 9. tölul. og í stað sama orðs í öðrum ákvæðum frumvarpsins, nema í 7. tölul. greinarinnar, komi (í viðeigandi beygingarfalli): yfirtökufélag. c. Í stað orðsins „Þátttökufélag“ í 13. tölul. og í stað sama orðs í öðrum ákvæðum frumvarpsins komi (í viðeigandi beygingarfalli): samrunafélag.

3. Í stað orðanna „að minnsta kosti“ í b-lið 2. mgr. 5. gr. og tvisvar í 2. mgr. 8. gr. komi: a.m.k.

4. Við 16. gr. Orðin „skv. 1. og 2. mgr.“ falli brott.“

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn: Sú sem hér stendur, Lilja Mósesdóttir formaður nefndarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þuríður Backman, Guðbjartur Hannesson og Guðmundur Steingrímsson.

Við afgreiðslu nefndarálitsins voru eftirfarandi hv. þingmenn fjarverandi: Pétur H. Blöndal, Jón Gunnarsson og Ólína Þorvarðardóttir.