137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[14:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit um frumvarp til laga um aðild starfsmanna að samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri, sem var fjallað um í hv. félags- og tryggingamálanefnd. Ég var ekki viðstaddur þá umræðu enda var ég þá staddur í Vilníus á vegum þingsins á ÖSE-þingi. Ég vil samt ræða þetta mál og sérstaklega vil ég benda á að við erum að innleiða ákveðna tilskipun Evrópusambandsins, Evrópuþingsins og -ráðsins. Við höfum áður innleitt t.d. innlánstryggingakerfi þess ágæta sambands og þar voru stórir gallar sem ekki voru uppgötvaðir, kerfisgallar frá Evrópusambandinu. Ég hef áður bent á eftir hrunið að menn þurfi kannski að vanda sig enn frekar, sérstaklega þegar kemur að tilskipunum Evrópusambandsins og gæta þess að í þeim séu ekki fólgnir gallar. Þrátt fyrir að maður freistist til að halda að sérfræðingar Evrópusambandsins í Brussel sjái við slíku er sá galli, sem kom fram í tilskipun um innlánstryggingar og kristallast svo í vanda íslensku þjóðarinnar gagnvart Icesave — sem er stórhættulegur vandi — vegna galla í tilskipunum Evrópusambandsins. Ég held að á því leiki enginn vafi og ég get fært rök fyrir því.

Það sem við ræðum hér er tilskipun um að þegar fyrirtæki sameinast yfir landamæri innan Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins haldi starfsmenn og aðrir réttindum sem þeir hafa áunnið sér í einu ríki. Nú er það oft dálítið erfitt vegna þess að í nokkrum löndum er t.d. aðild starfsmanna að stjórnum tryggð, í öðrum ekki. Það er óleyst hvernig menn ætla að fara með það ef fyrirtæki sameinast yfir landamæri, sérstaklega ef þeir flytja höfuðstöðvarnar til lands þar sem ekki er gerð krafa um að starfsmenn eigi aðild að stjórn. Út úr þessum lögum má þó kannski lesa að þá yrði í sameinuðu fyrirtæki að gera ráð fyrir að menn héldu því.

Í nefndarálitinu er líka getið um að æskilegt hefði verið að samræma hugtaka- og orðanotkun en það sé ekki hægt vegna þess að mismunandi fyrirkomulag sé í stjórnarskipun innan Evrópusambandsins.

Allt er þetta náttúrlega gert til þess að gera frjálst flæði fólks, fjármagns og fyrirtækja sem liprast innan Evrópusambandsins. Sumir hafa þó bent á að kannski varð holskeflan svona óskaplega stór á Íslandi vegna þess að fjármagninu var gefin frjáls braut en regluverkið og eftirlitskerfið fylgdi ekki eftir í sama mæli. Þess vegna mynduðust hér á Íslandi svo háar skuldbindingar að það svaraði til 40 milljóna á hvert einasta mannsbarn á Íslandi, litlu börnin talin með, þ.e. fjögurra manna fjölskylda skuldar í þeim skilningi 160 milljónir til útlanda en að sjálfsögðu voru það einkafyrirtæki sem skulduðu þetta. Það var því mikið fall sem stafaði af þessari frjálsu för fólks, fjármagns og fyrirtækja.

Ég vildi líka benda á að æskilegt væri að þegar frumvörp koma um breytingar á lögum eða til að innleiða tilskipanir sé tilskipunin alltaf talin upp í frumvarpinu en á því hefur verið ákveðinn misbrestur. Að menn ræði þá tilskipunina í hörgul og hvað hún þýði.