137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka fram að mér finnst mjög í anda vinstri stjórnar að taka til afgreiðslu á þessu sumarþingi þrjár tilskipanir Evrópusambandsins sem hafa það að markmiði að tryggja réttindi launafólks. Sú tilskipun sem við ræðum í dag var lögð fram á löggjafarþinginu 2007–2008 og hana dagaði þar uppi. Þetta er sem sagt í annað skipti sem hún er lögð fram og ástæðan fyrir því að hana dagaði uppi í fyrra skiptið var m.a. sú að aðilar vinnumarkaðarins gerðu veigamiklar athugasemdir við tilskipunina. Þær athugasemdir hafa verið teknar til greina þannig að ég tel að mjög vel hafi verið unnið að innleiðingu þessarar tilskipunar.

Ég vil líka taka fram að ég get ekki séð sömu hættu við að innleiða hér tilskipanir sem tryggja áunnin réttindi launafólks eins og að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins þar sem um er að ræða einhverja óljósa tilskipun um að ríkið eigi að taka á sig skuldbindingar einkafyrirtækja.