137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[15:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist að gera athugasemd við fundarstjórn virðulegs forseta þegar forseti ekki einu sinni heldur í tvígang snuprar þingmanninn sem hér var í ræðu sinni að fjalla um ákveðið dagskrármál á einhvern þann hátt sem forseta líkaði greinilega ekki.

Ég spyr: Er hæstv. forseti búinn að taka sér eitthvert ritstjórnarvald yfir ræðum hv. þingmanna? Ef svo er held ég að það ætti þá bara að gefa það út með skýrri línu vegna þess að þetta fannst mér alveg með ólíkindum og hreinlega dónaskapur í garð þingmannsins sem færði góð rök í máli sínu fyrir því af hverju hann tók þetta sjónarmið í sinni ræðu. Ég skil ekki af hverju hæstv. forseti beitir sér þá ekki t.d. fyrir því þegar við erum hér með fyrirspurnir til hæstv. ráðherra á dagskrá og þegar þeir svo sannarlega víkja sér undan því að svara spurningum, sem gerist hér oft á tíðum, (Forseti hringir.) hvort þessu ritstjórnarvaldi mætti ekki beita líka þá við fleiri tækifæri.