137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[15:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér kem ég upp til að taka undir hvert einasta orð hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur um að hæstv. forseti skuli gera athugasemdir við það þegar þingmenn tjá sig og setja mál í samhengi. Á sama hátt vil ég benda á, ef það hefur verið athugavert að hv. þm. Jón Gunnarsson skyldi hafa rökstutt mál sitt hér fyrir því frumvarpi sem hér liggur fyrir, að á sama tíma kemur hæstv. félagsmálaráðherra og fer að tala um Icesave-samninginn í þessu samhengi. Frú forseti. Hér verður að ríkja jafnræði.

Eins vil ég minna á að í morgun, fyrst ég er komin hér undir þessum lið og þingmenn eru oft stoppaðir ef þeir tala undir þessum lið, þá kom hæstv. forsætisráðherra hér þrisvar í ræðustól án þess að ávarpa forseta með formlegum hætti, en um leið og einn stjórnarandstöðuþingmaður kom upp og gleymdi því fékk sá hinn sami skammir. Hér verður að gæta jafnræðis. Ég fer fram á það við forseta þingsins að hér verði jafnræði milli stjórnar og stjórnarandstöðu.