137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

starfsmenn í hlutastörfum.

70. mál
[15:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég gæti talað langt mál um bótakerfi og hvernig misnotkun eyðileggur bótakerfin sem allir eru sammála um að koma á fót. Einhverjir skúrkar misnota þau og eyðileggja og gera ómöguleg.

Ég var mjög ánægður með þá hugmynd að veita hlutaatvinnuleysisbætur. Það er afskaplega merkileg tilraun sem verið er að gera hér á Íslandi. Fyrirtæki sem er með 100 manns í vinnu og neyðist til þess að segja 10% upp vegna þess að það ræður ekki við meiri kostnað en 90% af launakostnaði stendur frammi fyrir þrem kostum. Það getur sagt upp 10% af mannskapnum alveg, það getur sagt upp hverjum einasta manni 10%, þ.e. hver maður vinnur þá 90%, eða lækkað launin hjá öllum um 10%. Þetta eru þrjár leiðir og mér finnst langskynsamlegust sú að segja hverjum manni upp 10%. Þá haldast tengslin við vinnumarkaðinn, menn þurfa að mæta í vinnuna og annað slíkt. Þeir geta hugsanlega fengið sér einhvers staðar annars staðar vinnu fyrir 10 prósentin sem eftir eru eða verið atvinnulausir að því leyti. Mér fannst þetta merkileg tilraun og mér þykir mjög miður ef einhverjir skúrkar eyðileggja þessa merkilegu tilraun sem ég held að sé ekki þekkt annars staðar í heiminum, sennilega vegna þess að menn sjá möguleikann á misnotkun.

Svo var þetta líka víkkað yfir í sjálfstæða atvinnurekendur. Þar eru náttúrlega enn meiri möguleikar, en mér finnst að gera eigi kröfu til fólks í svona stöðu um að það misnoti ekki þau úrræði sem er verið að setja á laggirnar, einmitt til þess að bjarga þeim sem lenda illa í kreppunni.