137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

tímabundin ráðning starfsmanna.

78. mál
[15:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er komin upp til þess að lýsa ánægju minni með breytinguna í þessu frumvarpi. Ég tel þetta vera mestu réttarbótina af þessum þremur málum sem hafa verið lögð fram og kannski það sem skiptir mestu máli. Þarna vegur þungt, eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir fór yfir, að lengja frestinn úr þremur vikum upp í sex vikur vegna sumarleyfisákvæðisins.

Umboðsmaður Alþingis hefur aðeins fjallað um þetta í máli nr. 4929 frá 2007, auk þess sem Evrópudómstóllinn hefur fjallað um þessi mál. Oft er á mjög gráu svæði hvenær þetta tekur gildi og hvað má líða langur tími. Ég ætla því fyrir hönd Framsóknarflokksins að lýsa hér yfir ánægju með þetta frumvarp og við komum til með að styðja það.