137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna innleiðingar á tilskipun nr. 29/2005, frá Evrópusambandinu, um óréttmæta viðskiptahætti. Frumvarp sama efnis var til umfjöllunar í hv. viðskiptanefnd á 136. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Nefndarálitið er að finna á þskj. 199. Þar kemur fram að nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með einni orðalagsbreytingu, þ.e. að í stað orðanna „sem innleiða á“ í c-lið 1. gr. komi: sem innleiddar hafa verið. Er þetta gert til þess að taka af öll tvímæli um að ekki verður sett ný reglugerð eða gerð breyting á reglugerð í þá veru að bæta við upptalningu þeirra laga sem teljast til verndar hagsmunum neytenda nema efni þeirrar reglugerðar hafi verið tekið upp í íslenskan rétt. Um þetta voru nokkur áhöld. Menn gátu misskilið orðalagið eins og það var í frumvarpinu og var það nokkuð rætt við 1. umr. málsins, bæði fyrr í vetur og eins aftur núna þegar mælt var fyrir því á nýju þingi.

Verði þetta frumvarp að lögum verður sú breyting á að viðauki sem geymir upptalningu á þeim reglugerðum sem hafa verið innleiddar í íslenskan rétt og eru á sviði neytendamála mun ekki lengur hafa lagagildi heldur verður hann reglugerð. Þannig verður hægt á einfaldari hátt en áður að bæta inn á viðaukann þeim málum sem þegar hafa fengið lagagildi á Íslandi og teljast á sviði neytendamála. Nú inniheldur þessi viðauki 15 töluliði og hann er að finna í lögum nr. 56/2007. Verði frumvarpið að lögum með þessari breytingu verður eins og ég sagði áðan bætt við upptalninguna með reglugerð.

Frú forseti. Ég tel ekki ástæðu til að lesa nefndarálitið sem hér liggur fyrir á þskj. 199 og flutt er af hv. viðskiptanefnd.

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Eygló Harðardóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nefndarálitið og breytingartillöguna þar með rita auk þeirrar sem hér stendur Magnús Orri Schram, Guðlaugur Þór Þórðarson, Björn Valur Gíslason, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Margrét Tryggvadóttir.