137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[16:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég skal alveg fyrirgefa forseta að hafa fært mig aðeins neðar á listann ef hann lofar að gera það aldrei aftur. Nú færist maður upp hér eftir.

Virðulegi forseti. Við erum að ræða, eins og hér hefur komið fram, breytingar á ýmsum lögum vegna innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins um óréttmæta viðskiptahætti. Margt af því sem ég hafði ætlað að vekja athygli á hefur þegar komið fram, í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur. (Gripið fram í.) Góð vísa, eins og hv. þingmaður bendir á, er aldrei of oft kveðin þannig að ég hef í hyggju að fara aðeins yfir nokkur þau sjónarmið sem mér finnst standa upp úr.

Ég verð að segja að það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Einari Guðfinnssyni, þetta er lítið og sakleysislegt frumvarp og virðist við fyrstu sýn vera lítið og sakleysislegt mál. En það getur haft verulega víðtæk áhrif. Breytingartillagan sem við nefndarmenn flytjum sameiginlega í góðri sátt, — það er rétt að fram komi líka í þessum ræðustól að það eru sum atriði sem við getum náð ágætri sátt um — breytingartillagan er afar mikilvæg og ég tek undir það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði áðan varðandi það. Við nefndarmenn fyrtumst öll við þegar við lásum athugasemdirnar sem hér hafa verið lesnar en ég ætla í anda þess að góð vísa hefur aldrei verið of oft kveðin að lesa textann aftur, með leyfi forseta. Hér segir:

„Innleiðing síðari breytinga á viðaukanum, sem geymir upptalningu á ákveðnum EES-gerðum á sviði neytendamála, yrði í formi reglugerða sem er mun einfaldara en að breyta lögum hverju sinni. Það er því til mikils hægðarauka að breyta lögunum með þessum hætti enda þarf þá ekki að taka upp breytingar í lögin í hvert skipti sem breytingar eru gerðar á viðauka tilskipunarinnar.“

Það er allt í lagi að einhver hugsi: „Það er ágætt að hafa þetta svona, þurfa ekki að vera að ónáða þingheim með einhverjum litlum breytingum á listum og reglugerðum.“ En það er sláandi að sjá þetta á prenti og sú breytingartillaga sem við leggjum fram er klárlega til bóta.

Ég verð að gera þá játningu að þetta mál hefur ekki fengið mestu athygli mína undanfarnar vikur á þessu sumarþingi og ég ætla að játa það að ég hef ekki lesið tilskipunina og þessa löggjöf saman. Kannski er alvarlegt mál að ég standi hér í skriftastólnum. Jú, jú, ég hef flett í gegnum þetta, enda eru gögn málsins í möppum okkar og við höfum farið í gegnum þetta, á einum fundi þar sem við fengum gesti. Svipað og hv. þm. Lilja Mósesdóttir benti á áðan varðandi aðra Evróputilskipun sem var verið að innleiða var þetta kannski tveggja tíma fundur sem fjallaði um margt annað líka. Formaður mig leiðréttir ef ég fer rangt með, en ég tel að þetta mál hafi í mesta lagi fengið 45 mínútna umfjöllun í nefndinni samtals. Það er sláandi og hræðir mig. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á áðan þá tökum við þessar Evróputilskipanir kannski ekki nógu alvarlega og afleiðingarnar sem þær geta haft, eins og við erum nú að súpa seyðið af eftir ófarirnar á fjármálamörkuðum í haust. Það er alvarlegt að lögleiðing tilskipana skuli ekki vera vandaðri og við þurfum að hafa þetta sérstaklega í huga núna þegar aðildarumsóknin er farin til Evrópusambandsins. Innganga í Evrópusambandið mun ekki minnka mikilvægi þess að við förum vel og vandlega yfir það sem er að gerast. Allt hefur þetta áhrif hér innan lands og því mikilvægt að vanda til verka.

Ég hef sagt í umræðum um Evrópumálin að ég held að við fáum ekki það út úr samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem við gætum fengið og að við gætum haft mun meiri áhrif á gerðir Evrópusambandsins á mótunarstigi heldur en við höfum núna, við erum mjög meðvituð um það á þinginu. Ég sat í utanríkismálanefnd á síðasta þingi. Þar var þetta mikið til umfjöllunar og nefndin fór að beiðni virðulegs forseta Alþingis vel yfir hvernig bæta megi aðkomu Alþingis að Evróputilskipunum á mótunarstigi og skilaði skýrslu um það. Í rauninni liggur í augum uppi að mikilvægast er að leggja meiri vinnu í þetta, við þurfum að setja fleira fólk í að skoða þetta og það kostar fjármuni.

Af hverju segi ég þetta núna? Jú, vegna þess að við erum komin í aðildarumsóknarferli, þökk sé hv. þingmönnum Vinstri grænna, og við þurfum á nákvæmlega sama hátt að standa vörð um íslenska hagsmuni og passa upp á að þessar gerðir á mótunarstigi hafi ekki slæm áhrif hér á landi. Hvernig gerum við það? Það lagast ekki bara við að ganga í Evrópusambandið heldur þurfum við að leggja vinnu í þetta, tíma og fjármuni og gefa þessum hlutum gaum. Klárlega þarf að setja meiri slagkraft í þetta. En ég óttast að við munum ekki gera það. Okkur fjölgar ekkert, Íslendingum, þó að við sækjum um aðild að Evrópusambandinu. Ég held að meira að segja að Samfylkingin geti ekki haldið því fram. Við erum enn þá með litla stjórnsýslu, fáliðað embættismannakerfi sem á fullt í fangi með að halda í horfinu og er ekki endilega að gera það sem þyrfti, að lúslesa þessar gerðir og meta hvaða áhrif þau hafa á íslenskan rétt.

Virðulegi forseti. Eftir játningar mínar áðan um hversu litla athygli þetta mál hefði fengið vekur samt athygli að það er komið á dagskrá, sem þá væntanlega eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. Ég tek undir þá gagnrýni sem hefur verið sett fram. Við höfum verið hér í margar vikur frá kosningum, á sumarþingi sem átti að vera til að slá skjaldborg um heimilin og koma heimilum og fyrirtækjum til bjargar vegna þess bráðavanda sem nú ríkir. En við erum, 23. júlí, að ræða um Evróputilskipanir, stórar sem smáar. Þessi dagskrá er hreint með ólíkindum, að forgangsröðunin sé svona, en ég get alveg upplýst hv. þingheim um mína skoðun á því af hverju þetta er. Það er mjög einfalt. Verið er að bíða eftir Icesave. Icesave-málið er í miklum hnút innan ríkisstjórnarinnar, það er verið að telja hausa nákvæmlega eins og var gert í ESB-málinu. Hæstv. ríkisstjórn er búin að komast að því að hún fær ekki samninginn staðfestan á þessu þingi þannig að nú þarf að hlaða inn litlu málunum, sem undir öllum eðlilegum kringumstæðum mundu bíða, svo að tími vinnist til að breiða yfir þennan mikla ágreining.

Við höfum rætt í viðskiptanefndinni hvernig sjónarmiðum okkar í minni hlutanum er tekið. Við fáum að tjá þau en ég hef sagt við hv. formann nefndarinnar að ég líti svo á að ekki sé mikið mark á okkur takandi miðað við þær fáu breytingar sem við höfum náð að koma fram á málum sem eru stærri en þetta. Þess vegna ætti ég kannski ekki að vera að gefa hæstv. ríkisstjórn góð ráð en ég ætla samt að gera það þó að ekki væri nema til að skaprauna hv. þm. Álfheiði Ingadóttur einn eina ferðina með góðum ráðum … (ÁI: Hvað á hv. þingmaður við?) Hv. þingmaður á þá við að í mikilli undirgefni vill þingmaðurinn geta þess að hún hefur ítrekað á fundum viðskiptanefndar komið fram með ýmis sjónarmið sem ekki hafa verið tekin til greina við niðurstöðu og úrvinnslu mála vegna þess að við höfum ekki verið sammála. Þetta var sagt góðlátlega og ekki meint neitt illt með því en það ráð sem ég vildi gefa hæstv. ríkisstjórn er að einbeita sér að því að klára þau mál þar sem mikið liggur við. Þetta getum við klárað í sátt og sameiningu en við skulum sýna íslensku þjóðinni að á þessum óvissutímum leggjum við okkur öll fram um að vinna að málum sem munu koma til með að breyta einhverju til batnaðar fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Með allri virðingu fyrir tilskipun Evrópusambandsins um óréttmæta viðskiptahætti þá held ég að hún muni ekki skipta miklu máli í lífi Íslendinga á komandi vikum og mánuðum og hefði þess vegna mátt bíða haustsins.