137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka skýrt fram að hvorki kom fram við meðferð málsins né í umræðum í þinginu af hálfu hæstv. viðskiptaráðherra að sú hafi verið ætlunin og á það við um báðar 1. umræðurnar sem hafa farið fram í þinginu, bæði í vetur og nú eftir að nýtt þing var sett. Hv. þingmaður hefur allmiklu meiri þingreynslu heldur en sú sem hér stendur og veit að lögskýringar er að finna víðar en í lagatexta. Til að rýna í hvað við er átt og hvernig túlka beri lög leita menn að sjálfsögðu til greinargerða en þeir leita einnig í ræður flutningsmanna, í nefndarálit og ekki síst breytingartillögur sem fram eru bornar, eins og hér háttar.

Ég tók skýrt fram og aðrir hv. nefndarmenn sem hér hafa talað að breytingartillagan er flutt til að taka af allan vafa í þessum efnum. Vegna ábendinga sem hér komu fram í þingsal bæði við 1. umr. í vetur og svo aftur í vor þótti það rétt en á fundum nefndarinnar með fulltrúum viðskiptaráðuneytisins kom fram að aldrei stóð til af ráðuneytisins hálfu að túlka þessa heimild á annan hátt en hér er verið að árétta.