137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[16:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er ekki ætlun mín að lengja þessa umræðu á nokkurn hátt en ég hafði ekki tækifæri til þess í stuttum andsvörum að víkja að einu af mínum erindum sem ég átti í ræðustólinn hér áðan, sem var að vekja athygli á þingmáli sem ég er 1. flutningsmaður að og ég gerði að umtalsefni og snýr að hagsmunum minni hluthafa í hlutafélögum. Ástæðan fyrir því að ég tók þetta upp núna var auðvitað sú að við erum hér að ræða um frumvarp um óréttmæta viðskiptahætti. Ég vakti athygli á því að því miður eru ýmis dæmi um að menn hafa verið að beita óréttmætum og ég vil segja jafnvel óeðlilegum aðferðum innan hlutafélaga í krafti meirihlutavalds eða í krafti þess að aðilar eru með ráðandi hlut í hlutafélögum sem litlir hluthafar eiga fá úrræði við.

Þess vegna lagði ég fram þessa þingsályktunartillögu með fjölmörgum félögum mínum úr Sjálfstæðisflokknum. Hér er þó ekki um að ræða mál sem eingöngu er bundið við sannfæringu sjálfstæðismanna í þessum efnum heldur skírskotaði ég til þess að um þessi mál hefur verið mjög breið og almenn samstaða í þinginu. Þessi mál hafa oft verið rædd hér á vettvangi þingsins og fjölmargir þingmenn hafa einmitt látið í ljós áhyggjur sínar af því að verið sé að fara illa með litla hluthafa í stórum og smáum hlutafélögum. Ég vek athygli á því að hér getur verið um að ræða gríðarlega mikla hagsmuni.

Það er oft talað um þessi mál eins að þeir sem eru eigendur að hlutafé séu hinir ríku og öflugu í þjóðfélaginu sem ekki þurfi að hafa miklar áhyggjur af. En það er óvart ekki þannig heldur er það svo, eins og kom fram í máli mínu, að 50 þúsund hluthafar eða þar um bil töpuðu miklu fé við hrun bankanna og fjölmargir aðrir hafa bæst í þann hóp eftir að fór að halla undan fæti hjá atvinnulífinu. Þess vegna er hér um að ræða mikla almenna hagsmuni sem lúta að hagsmunum ekki síst launafólks og mjög margra til að mynda eldri borgara í landinu þannig að hér er um að ræða mjög stórt mál.

Ég vil út af fyrir sig fagna því sem kom fram í máli hv. formanns nefndarinnar, Álfheiðar Ingadóttur, um velvilja hennar í garð þess að þetta mál verði skoðað. Ég geri mér grein fyrir því að á dagskrá nefndarinnar hafa verið stór og erfið og þung mál, m.a. frá ríkisstjórninni. Ég er ekki svo grænn að ég geri mér ekki grein fyrir því að mál ríkisstjórnarinnar hafa eðli máls samkvæmt ákveðinn forgang í þinginu og hef svo sem staðið að því sjálfur og ætla mér ekki að fara að setja mig á háan hest yfir einhverju slíku. Það er hins vegar þannig að nú fer væntanlega að hilla einhvern tíma undir það að þessu þingi ljúki og þess vegna vil ég ítreka það og hvetja til þess að þetta mál verði skoðað alveg sérstaklega vegna þess sem ég nefndi hér áðan að það eru mjög miklir hagsmunir í húfi. Þetta eru stór álitaefni, þetta eru hagsmunir fjölda fólks um allt land, stórra og smárra, fátækra og ríkari, og þess vegna er hér um að ræða mikla almenna hagsmuni sem ég tel að menn eigi að hyggja að. Einnig vegna þess sem ég benti á að á bak við það þingmál sem ég gerði að umtalsefni eru tvö frumvörp sem ég gerði lauslega grein fyrir, sem voru vandlega unnin frumvörp á sínum tíma þar sem kallaðir voru til ýmsir sérfræðingar til þess að aðstoða okkur flutningsmenn málsins og á bak við þessi tvö frumvörp stendur hópur flutningsmanna úr öllum þáverandi þingflokkum sem áttu fulltrúa á Alþingi á þeim tíma.

Til viðbótar, svo ég nefni það enn og aftur, er það svo að bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru meðal flutningsmanna málsins. Og að lokum sem rök fyrir því að ég tel að þetta mál eigi að fá þinglega afgreiðslu í vor vil ég vekja athygli á því að það liggja þegar fyrir umsagnir frá fjöldamörgum aðilum. Ég hef farið yfir þessar umsagnir sjálfur, þær eru ekki flóknar eða kalla sérstaklega á mjög ítarlega skoðun. Þær umsagnir sem á annað borð taka efnislega afstöðu til málsins eru þess eðlis að þær hvetja eingöngu til þess að málið verði samþykkt, líka vegna þess að þetta er þingsályktunartillaga þar sem efnið er það að hæstv. viðskiptaráðherra eða ríkisstjórninni verði falið að setja á laggirnar nefnd til þess að fara yfir löggjöfina sem snertir hagsmuni hinna minni hluthafa með það fyrir augum að leggja fyrir þingið á næsta þingi, sem er kannski orðinn tiltölulega of lítill tími til, en að gera það þá alla vega hið fyrsta að leggja fram hugmyndir um það hvernig hægt sé að breyta löggjöfinni eða meðferð mála þannig að betur verði séð fyrir hagsmunum minni hluthafa í landinu.

Virðulegi forseti. Ég hef allan skilning á því að mikið sé að gera hjá viðskiptanefnd og ég geri ekki lítið úr því. Mér er alveg ljóst að hún hefur haft stór og mikil mál á sinni könnu og hef alveg skilning á því að þetta mál — þó að ég telji það mikilvægt — hafi beðið, en nú tel ég hins vegar að ekki sé eftir neinu að bíða og það sé full ástæða til að nefndin gefi sér örlítinn tíma til að skoða þessar umsagnir og sannreyna það sem ég er að segja hér að þær umsagnir eru allar á þann veg, að það er ekkert að vanbúnaði að taka efnislega afstöðu til málsins. Þess vegna vil ég hvetja hv. formann nefndarinnar til að beita sér fyrir því að þetta mál verði skoðað sem fyrst á fundi nefndarinnar.

Það kom fram að t.d. þetta mál hefði í þessari atrennu verið afgreitt á um það bil 45 mínútum. Ég er út af fyrir sig ekki að hvetja til þess að mál séu afgreidd með einhverju hraði en vil ég vekja athygli á því að það þingmál sem ég er að vísa til hefur fengið þá meðferð að það er búið auðvitað að fara rækilega yfir það. Það er að stofni til byggt á þeim hugmyndum sem koma fram í frumvörpunum sem ég hef vísað til og eru í fylgiskjölum tillögunnar og þau mál hafa þess vegna verið grandskoðuð. Þau mál voru síðan lögð fyrir Alþingi einu sinni ef ekki tvisvar án þess að hljóta afgreiðslu. Því tel ég að þingið, þó að það sé ekki þetta þing, hafi haft aðstöðu til að velta þessum sjónarmiðum fyrir sér. Fyrir utan það að ég hygg að um það sé almenn pólitísk samstaða að hluti af þeim óréttmætu og óeðlilegu viðskiptaháttum sem hafa viðgengist í okkar samfélagi snerta einmitt þetta tiltekna atriði. Í ljósi þess að nú er þó verið að afgreiða frumvarp sem tekur einmitt á óréttmætum viðskiptaháttum, þó að það sé ekki mikið að vöxtum, gæti það gefið tilefni til heilmikilla vangaveltna og starfa af hálfu nefndarinnar og með skírskotun til alls þessa tel ég að ekkert sé að vanbúnaði að ljúka meðferð málsins.

Virðulegi forseti. Ég vil svo að lokum aðeins ítreka það sem ég sagði áðan. Þetta frumvarp er í sjálfu sér eins og það er lagt fram að öllum líkindum ekki þess eðlis að það verði einhver héraðsbrestur eða tímamót í íslenskri löggjöf sem snertir hagsmuni neytenda eða annað sem snýr að óréttmætum viðskiptaháttum. Þetta frumvarp mun ekkert brjóta sérstaklega í blað, geri ég ráð fyrir, en það er hins vegar angi af stórri löggjöf og heilmiklu tilskipana- og reglugerðarumhverfi sem er um þessi mál innan Evrópusambandsins. Ég tel að þetta frumvarp gæti verið okkur tilefni til þess enn einu sinni að fara yfir það með hvaða hætti við vinnum þessi mál hér í þinginu. Það er auðvitað búið að gera, eins og ég nefndi áðan, ýmsar atrennur að því að skoða hvernig Alþingi geti, til þess að halda sinni eðlilegu reisn og sem þjóðþing fullvalda þjóðar, farið yfir tilskipanir frá Evrópusambandinu og gert á því þær breytingar sem hægt er innan þess ramma sem okkur er settur. En til þess að það sé hægt með eðlilegum hætti þarf auðvitað að gæta þess að þegar málin koma fyrir þingið séu þau lögð þannig upp að þingmenn eigi greiða leið að því að gera sér grein fyrir málinu, ekki bara hinum þröngu efnisatriðum í einstökum frumvarpsgreinum, heldur að gera sér grein fyrir efni málsins í því samhengi sem það er upphaflega hugsað.

Það er ekki sanngjarnt gagnvart þinginu að gera það eins og hér er gert þar sem frumvarpstextinn er svo sem ekki mikill að vöxtum og athugasemdirnar, bæði við einstakar greinar frumvarpsins og (Forseti hringir.) frumvarpið sjálft, eru ekki til þess fallnar að skýra málið fyrir manni. Þetta er nokkuð flækjukennt og gerir það að verkum að fyrir okkur sem stöndum utan við fagnefndina, sem hefur auðvitað möguleika á að fara betur yfir þessi mál, er þetta ekki viðunandi að búa við það að geta ekki tekið afstöðu til málsins nokkuð örugg um að þær breytingar sem verið er að gera feli ekki í sér einhverjar afleiðingar sem ekki verða séðar fyrir. Þess vegna vil ég ítreka þá kröfu mína að þegar svona mál verða (Forseti hringir.) lögð fyrir verði þau skýrð betur og bakgrunnur þeirra skýrður betur en gert er í þessu frumvarpi og ýmsum öðrum sem lögð eru fram og fela í sér vilja til staðfestingar á reglugerðum Evrópusambandsins.