137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að sannarlega væri til bóta að fara yfir málin enn víðar í ríkisrekstrinum og með sem heildstæðustum hætti. Ég get út af fyrir sig líka tekið undir þær íhuganir sem hv. þingmaður hafði um tiltekinn stjórnanda hjá ríkinu enda öllum ljóst að í því tilfelli er um að ræða gríðarlega mikla stjórnunarlega ábyrgð og starfsskyldur, rétt eins og hjá hæstv. forsætisráðherra.

Ég held hins vegar að menn hljóti að vera sammála um það þvert á flokka, eins og kom ágætlega fram í viðræðum sem ég átti í nóvember sl. við hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen, að í uppsveiflunni höfum við misst nokkuð tökin á launaþróun víða í ríkiskerfinu, ekki síst hjá framkvæmdastjórum og í opinberu hlutafélögunum eða hlutafélögum í eigu ríkisins. Þar hafa laun sums staðar orðið, að ég held að ég megi segja, nokkuð úr hófi fram og úr samhengi við annað sem við þekkjum í ríkisrekstrinum. Vissulega er þetta mál sem nær til takmarkaðs hluta kerfisins. Við getum sagt að verið sé að slá keilur með því og annað þess háttar en hið táknræna skiptir líka máli. Litlar tölur skipta líka máli í sparnaði og þó að sparnaðurinn nemi ekki nokkrum tugum milljóna þá eru það líka peningar. Það eru líka skilaboð til þeirra lágt launuðu ríkisstarfsmanna sem taka á sig kjaraskerðingar að þeir verði ekki einir um að þurfa að þola það heldur þurfi topparnir líka að taka á sig skerðingar á þeim erfiðu tímum sem við nú glímum við.