137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[18:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni þar sem hann talar um vinsældapólitík. Hér er dæmi um einhverja mest misskildu pópúlismapólitík þessarar jafnaðarmannastjórnar, þessarar vinstri stjórnar, sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Það á að skera niður laun hjá þeim sem hafa hvað hæst laun í opinbera geiranum. Þetta getur haft í för með sér atgervisflótta úr landinu og þess er þegar farið að gæta. Fyrir skömmu voru auglýstar sérfræðistöður lækna sem venjulega hafa verið eftirsóttar af okkar fólki í sérfræðinámi erlendis og þetta fólk hefur sótt heim. Hér hafa líka stöður, sem hafa verið taldar góðar stöður heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu, verið auglýstar og umsækjendur eru engir. Enginn sækir um, virðulegi forseti. Það er rakið m.a. til þessa popúlismafrumvarps sem ríkisstjórn vinstri manna setur fram hér í þinginu og er algjörlega misskilið en getur haft þessar alvarlegu afleiðingar.

Það er ekki eins og við höfum ekki dæmin fyrir okkur, virðulegi forseti. Í þessu efnahagshruni er gjarnan talað um að einhver hluti í eftirlitinu hafi brugðist. Við hvað bjó Fjármálaeftirlitið? Fjármálaeftirlitið bjó við það að vera uppeldisstöð, útungunarstöð fyrir fjármálakerfið í landinu, fyrir bankakerfið. Þaðan var besta fólkið tekið og yfirborgað í bankakerfinu þannig að alltaf var verið að ala upp nýtt fólk. Það var ekki fyrr en á síðustu metrunum að farið var að auka fjárheimildir Fjármálaeftirlitsins þannig að hægt væri að bregðast við þessu og halda fólki þar í vinnu.

Við munum sjá þetta sama gerast núna í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og víðar í opinbera geiranum. Besta fólkið okkar verður yfirboðið. Það verður ekki yfirboðið innan lands hjá öðrum ríkisfyrirtækjum. Það verður yfirboðið erlendis og við missum það úr landi. Afleiðingar þessa frumvarps (Forseti hringir.) þessarar vinstri jafnaðarmannastjórnar verða atgervisflótti úr landinu.