137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[18:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson hitti einmitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að hættan af því að innleiða vanhugsuð lög sem eiga að líta vel út í augum hins almenna manns, líta út fyrir að verið sé að taka á einhverri óráðsíu, líta úr fyrir að menn taki á hlutunum af mikilli ábyrgð, líta út fyrir að verið sé að takast á við efnahagsvandann, eins og segir í inngangi frumvarpsins — þetta eru bara falsrök. Þetta er bara til þess gert að slá ryki í augun á almenningi og reyna að sýna eitthvað sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar kallaði táknrænan gjörning. Eins og það létti lífið fyrir opinbera starfsmenn þegar kemur að því að þeim verði tilkynnt um að það eigi að lækka laun þeirra í haust.

Það er bara barnaskapur að halda að þetta muni lina þjáningar þess fólks sem verður fyrir þessum launalækkunum. Eins og hv. þm. Jón Gunnarsson benti ágætlega á eru einu afleiðingarnar af þessu þær að hér getur orðið spekileki. Við getum misst ungt, klárt fólk úr landi og náum ekki að laða að fólk í þau störf sem þarf svo bráðnauðsynlega að sinna núna við uppbygginguna.