137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[18:10]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég grípi boltann á lofti frá hv. þingmanni er það nákvæmlega þetta sem mun gerast. Þetta mál er dæmigert fyrir hæstv. ríkisstjórn. Hér er verið að slá ryki í augun á almenningi um að þessi ríkisstjórn ætli að ganga fram fyrir skjöldu og gæta ýtrustu varúðar í öllum kostnaðarliðum á sama tíma og hún leggur á borðið hjá okkur reikning upp á tvo milljarða fyrir lögfræðikostnaði þjóðar sem ræðst á okkur í svokölluðu Icesave-máli, tvo milljarða. Hana munar ekki um það. Nei, hún kýs að skera niður til aldraðra og öryrkja um 300 milljónir á mánuði, sem var eitt hennar fyrsta verk. Bara reikningurinn fyrir lögfræðiþjónustunni hefði getað mildað afleiðingarnar ef við hefðum dreift honum í tvö ár á þá málaliði og hjálpað því fólki. Þessi ríkisstjórn þarf ekki að hugsa sig tvisvar um þegar kemur að þeim efnum, jafnaðarmannavinstristjórnin. Nei, það er allt í lagi að skera niður hjá þeim sem minna mega sín í þessu samfélagi. Nú á að ganga fram með rykbólstrum, eins og gjarnan gerist, fara af stað með miklum látum þannig að það gusti nú nógu mikið af henni. Þetta er algjörlega misskilin popúlismapólitík.

Ég vil taka undir með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að auðvitað eiga stjórnarliðar að sjá sóma sinn í því að taka þetta mál til baka ásamt mörgum af þeim nítján málum sem okkur er boðið upp á að ræða á sumarþinginu í dag og flestöll skipta engu máli fyrir þessa þjóð. Þá er allt annað sett á hilluna, allt sem var lofað. Velferðarbrúin svokallaða sem var lofað má rykfalla á hillunni. Það þarf (Forseti hringir.) ekki að sinna fólkinu í þessu landi.