137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[18:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Nú veit ég ekki hvort ég man rétt en … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti minnir hv. þingmann á að beina orðum sínum til forseta.)

Virðulegi forseti. Það er eins og mig minni að þetta mál sé eitt af þeim málum sem eru á listanum góða hjá ríkisstjórninni. Það er því kannski ekki auðvelt að kippa því út eins og ég og hv. þm. Jón Gunnarsson höfum lagt til og mundum báðir telja stjórnarþingmenn menn að meiri fyrir að gera það. Þannig að það kannski kemur í veg fyrir það.

Það er alveg hárrétt. Það að beina athyglinni að svona smá tittlingaskít á meðan stóru málin bíða, skuldabaggi heimilanna vex og vex, greiðslubyrðin verður þyngri og þyngri og fyrirtækin brenna. Nei, þá er ágætt að tala um popúlistamál, erfðabreyttu lífverurnar, förgun úrgangs og öll þessi smámál sem skipta engu máli í því samhengi og við þann raunveruleika sem við búum í dag, ekki nokkru máli.

Hv. þm. Jón Gunnarsson minntist á velferðarbrúna. Öll þessi málsmeðferð ber vott um að valdhafarnir eru orðnir bensínlausir áður en þeir komast á brúna. Þeir komast ekki að brúnni og að því sem skiptir raunverulega máli, það er fyrirtækjum og heimilum í þessu landi, og að koma landinu upp úr þeim hjólförum sem það er í. Þess í stað á að stunda popúlisma og (Forseti hringir.) slá ryki í augu fólks.