137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[18:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að upplýsa hvers vegna ég var ekki viðstaddur afgreiðslu málsins. Ég var staddur erlendis og það fórst fyrir eða mistókst að koma boðum um að það kæmi varamaður í minn stað. Ég var því ekki viðstaddur umræðu um þetta mál í nefndinni og er það miður. En þannig er nú það, ég var erlendis á vegum þingsins.

Ég er ekki alveg sammála hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni í greiningu hans á vandanum. Þetta frumvarp er algerlega í samræmi við hugsanir og stefnur vinstri manna. Þeir stefna að því að hafa öll lögin helst eins og ýtrustu kommúnistar vilja náttúrlega að allir séu með sömu launin og ekki tekið tillit til reynslu, menntunar, þekkingar, snilli, dugnaðar eða nokkurs skapaðs hlutar og allir eiga að vinna og vera góðir, vinna jafnt. Þetta frumvarp er í sjálfu sér alveg í takt við þá heimssýn. Ég hugsa að það örli eitthvað á lýðskrumi og eitthvað af popúlisma en ég hugsa að þetta sé alveg í takt við þá heimssýn sem þeir hafa. Ég tek því þannig.

Gallinn við þetta er sá að það er í gangi ákveðinn vinnumarkaður hvort sem menn vilja eða ekki. Það hefur sýnt sig að kommúnisminn sem ætlaði að byggja á því að allir væru jafnir gekk ekki upp vegna þess að fólk er mismunandi eins og ég gat um áðan. Sumir eru duglegir, aðrir snjallir og útsjónarsamir og sumir eru klaufar o.s.frv. þannig að fólk er ekki allt eins. Það þýðir að þeir sem geta boðið vinnu vilja gjarnan borga meira fyrir einn starfsmann en annan af ýmsum ástæðum.

Ég vil minna á það að núna erum við í miklum vanda. Við erum að glíma við kreppu sem hefur ekki komið á Íslandi áður og við leitum ráða erlendis, reynum að fá erlenda sérfræðinga og annað slíkt og við lendum strax í vanda. Hvað ætlum við að borga þeim sérfræðingum sem koma hingað til Íslands? Eiga þeir að vinna við hliðina á Íslendingum, jafnvel forstöðumönnum í stofnunum, með miklu hærri laun? Menn lenda strax í þessum vanda við það að fá almennilega þekkingu.

Við erum að fara að ræða við Evrópusambandið. Hvernig fólk ætlum við að senda þangað? Á það að vera fólk sem nennir þessu varla, hefur engan hvata og fékk starfið af því að enginn annar almennilegur sótti um eða eitthvað slíkt? Þeir eiga svo að tala við háþróaða sérfræðinga hinum megin? Er þetta gæfulegt að ráða áhöfnina á skipið svona? Ég er ekki viss um það.

Svo lendum við strax í vandræðum með vissa aðila, t.d. dómara. Dómarar benda á það að þeir eru þriðja valdið, þeir eru ein af þremur stoðum þjóðfélagsins. Við erum með ráðherra, framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið og svo dómsvaldið. Það er svo mikið samkrull á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds að þar eru menn ekki að tvínóna við það að hafa sambærileg laun. Þau eru reyndar ekki sambærileg en hvað um það. Dómarar segjast aftur á móti vera óháðir og það megi ekki setja svona takmarkanir á þá.

Svo er dálítið merkilegt að einn aðili í þjóðfélaginu er undanskilinn og það er forseti Íslands. Það er vegna þess að í stjórnarskránni stendur að ekki megi skerða laun hans á kjörtímabili hans. Auðvitað mætti skerða hið mesta af þessu. En það merkilega var að fyrir nokkrum árum er forseti Íslands með nánast sömu laun samkvæmt kjaradómi og forsætisráðherra. En það virðist vera að kjaradómur hafi ekki áttað sig á því að forsetinn borgaði enga skatta en forsætisráðherra gerði það. Og forsetinn borgaði ekki bara enga skatta af tekjum heldur borgaði hann ekki virðisaukaskatt eða yfirleitt neina skatta, hvergi, tolla, vörugjald eða nokkuð, fékk allt endurgreitt. Svo var þetta skattfrelsi afnumið og ég átti þátt í því, frú forseti, þannig að ég er dálítið stoltur af því að hafa gert hann jafnan hinum Íslendingunum en þá taldi kjararáð að hækka þyrfti launin hans umtalsvert. Mig minnir að það hafi verið 50% sem hann hækkaði í launum við það að missa skattfrelsið. Allt í einu myndaðist mikill munur á milli forsætisráðherra og forseta. Menn ætla sér í þessu frumvarpi að viðhalda þeim mun og geta sennilega ekki mikið annað nema þeir hefðu getað sett í bráðabirgðaákvæði að hann skuli halda þeim launum út kjörtímabilið en næsti forseti verði með lægri laun og sömu laun og forsætisráðherra. Ég sé enga ástæðu til að forseti sé miklu hætti laun en forsætisráðherra.

Við erum líka að ráða inn saksóknara og við viljum gjarnan að það séu afskaplega færir menn vegna þess að það er mikill vandi að ráða við og ráða úr og finna í þeim mikla haug af gögnum sem þarf til að sakfella menn í efnahagsbrotum sem við erum að glíma við núna. Ég veit ekki hvort það er gæfulegt á því augnabliki að byrja á því að lækka launin. Ég er ekki viss um það.

Það sem ég er í raun að tala um er að þegar fólk fær laun er í fyrsta lagi oftast verið að borga fyrir menntun. Sumir fara í langskólanám, jafnvel 10 ára nám, hjartaskurðlæknir fer í 10 ára nám og hann kemur til starfa 10 árum seinna en aðrir. Segjum að hann byrji að vinna þrítugur. Þá er hann með heljarinnar skuldir á bakinu. Hann getur ekki verið með sömu laun og einhver annar sem fór ekki í skóla þannig að það er greinilegt að það þarf að borga fyrir menntunina. Nú er engin krafa gerð til þess að forsætisráðherra sé með sérstaka menntun og ekki heldur þingmenn þannig að hvorki hjá forsætisráðherra né hjá þingmönnum er borgað fyrir menntun eða reynslu. Það er því dálítið undarlegt að setja svo þak á aðra sérfræðinga sem stýra stofnunum og kerfi ríkisins.

Það sem ruglar þetta líka er það að vissar stéttir á Íslandi hafa heiminn undir í sínu starfi. Flestir geta sótt um störf á Íslandi og þekkja þar til. Margir geta farið til Norðurlandanna, iðnaðarmenn og fleiri en svo eru sumir sem hafa allan heiminn undir. Til dæmis hjartaskurðlæknar, svo ég nefni þá aftur. Ég hugsa að þeir geti fengið vinnu hvar sem er og þá fer gengi krónunnar að skipta máli. Það er búið að lækka þessi laun óskaplega mikið með því að gengið hefur fallið og ég hugsa að bráðum fari að verða erfitt að fá slíka menn, sérfræðinga til landsins sem rogast hingað til lands með miklar námsskuldir, hvað þá ef við ætlum að fá erlenda sérfræðinga. Það verður þá útilokað og við getum lent í því eftir ekki langan tíma að við hreinlega fáum ekki fólk til að skera upp í okkur hjartað. En það er kannski það sem einhver vill, ég veit það ekki. Það sem ég er að tala um er í rauninni það sem menn nefna spekileka eða „brain drain“ að besta fólkið kemur ekki til landsins og hér verða meðalmenni eftir. Það er kannski hættan við svona frumvarp.

Svo er líka dálítið merkilegt í þessu frumvarpi eða breytingartillögum nefndarinnar að þeir taka út dótturfélög. Það er fyrsta stigið sem gildir hjá hlutafélögum hins opinbera. Þá getur komið upp sú merkilega staða að forstjóri móðurfélagsins er með segjum 800 þús. kr. á mánuði en forstjóri dótturfélagsins sem hann ræður yfir í rauninni og er oft og tíðum í stjórn dótturfélagsins er með miklu hærri laun. Ég er nærri viss um að hann ræður sjálfan sig í dótturfélagið og setur hinn í gamla starfið til að hækka sig í launum og þá er ekki víst að hinn sætti sig við það. Þetta er dálítið ankannalegt allt saman og fyrir utan það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi var áðan að í heilbrigðiskerfinu virkar þetta bara á einn starfsmann. Sparnaðurinn verður ekki mikill þar því sá ræður yfir fjölda fólks sem verður með hærri laun en hann og er mjög ankannalegt.

Svo er eitt sem menn gleyma iðulega, það er ákveðin starfsgleði og hvati. Fólk sem er með góð laun er yfirleitt ánægðara í vinnunni, því finnst það vera metið að verðleikum. Ég veit ekki hvað gerist með mann eins og þessi umræddi forstjóri sem valdi að koma hingað með eitthvað lægri laun, svo fer gengið niður, svo er farið að lækka launin og hann er kannski kominn með miklu lægri laun, einn þriðja, eitthvað svoleiðis. Hver er starfsánægjan? Ég veit það ekki. Það getur vel verið að menn séu svo fullir af hugsjónum að þeir geti haldið áfram að vinna af jafnmikilli gleði og langt fram á nótt og jafnvel á næturnar við að leysa ákveðin vandamál í slíkri stöðu. Ég er ekki viss um það. Ég held að svona lög og svona frumvörp eyðileggi starfsánægju og hvata fólks til að vinna umfram það sem það sem bráðnauðsynlega þarf.

Það er nú einu sinni þannig að í stjórnunarstöðum geta menn stjórnað óskaplega hratt og tekið margar ákvarðanir á stuttum tíma en svo geta þeir líka verið lengi að því og jafnvel tekið engar ákvarðanir sem er alverst. Þeir fá alltaf sömu launin, það skiptir ekki máli. Ef launin eru lág ríkir engin samkeppni annars staðar frá þannig að þeir geta alveg verið rólegir að slappa dálítið af.

Þetta er allt saman dálítið varasamt og ég bendi mönnum á að þetta getur eftir einhver ár leitt til mikilla vandræða. En ég skil alveg hugsunina á bak við þetta og ég skil það líka að lækka þarf kostnað í ríkisgeiranum. Það er búið að lækka laun í einkageiranum þannig að að því leyti er þetta skynsamlegt en það vill svo til að kjararáð á að taka mið af þeim launum við ákvarðanir sínar þannig að kjararáð ætti núna að lækka laun hjá þeim sem heyra undir það núna að óbreyttum þessum lögum.

Það er dálítið ankannalegt eins og bent hefur verið á að á sama tíma og við erum að ræða svona hluti, skerðingar, lokun deilda og allt það þá eru menn að taka ákvörðun um að halda áfram með eitthvert tónlistarhús, það kostar 20–30 milljarða. Skrifa undir Icesave-samninginn um að borga Bretum og Hollendingum, Bretum 9 millj. pund ef ég man rétt og Hollendingum 7 millj. evra fyrir kostnað, alger niðurlæging, bara alger niðurlæging, frú forseti, svo ég undirstriki það. Það sýnir að þeir láta okkur borga fyrir vöndinn sem við erum flengd með. Á sama tíma og við gerum þetta í dag kom fram í svari að ríkið ætti að taka einhver listaverk, 4.000 listaverk og hvað halda menn að gerist þar? Við þurfum að borga fyrir þau að sjálfsögðu. Halda menn virkilega að þau séu einhvers staðar á lausu, svífandi í loftinu og kosti ekki neitt? Þau eru eign kröfuhafanna. Það er þannig. Ef við ætlum að fá þau, þessi 4.000 listaverk, þá verðum við bara að kaupa þau. Það gerist ekkert öðruvísi. Ef þau verða áfram í gömlu bönkunum eða nýju bönkunum, það skiptir ekki máli, þá eru þau eign. Það minnkar þá þörf bankanna fyrir annað eigið fé, þau eru eign og þetta eru 4.000 stykki. Ég veit ekki hvað svona málverk kostar, hef ekki hugmynd, 100 þús. eða milljón. Ef stykkið kostar milljón þá eru þetta 4 milljarðar. Hér við þetta púlt í dag svaraði menntamálaráðherra að hún ætlaði að kaupa þetta á 4 milljarða. Á sama tíma og við erum að tala um einhvern smáaur í þessum samanburði, á sama tíma og við ætlum að fara að loka deildum, segja upp umönnunarstéttum o.s.frv. Þetta gengur ekki upp, frú forseti. Það er ekkert samræmi í því að við erum að setja 10 milljarða í tónlistarhús, ráða erlenda verkamenn, borga dýran júan fyrir þetta gler sem kemur til landsins, gjaldeyri sem við eigum ekkert af og svo er tekin ákvörðun um það eða mikil hrifning yfir því að nú skulum við bara kaupa þessi 4.000 stykki af málverkum. Til þess þarf peninga. Það er ekki nógu mikið samræmi í þessu og mér finnst að menn þurfi virkilega að fara að átta sig á því að peningarnir eru takmarkaðir og við þurfum að nota þá skynsamlega. Ég er ekki viss um að þetta frumvarp sé besta leiðin til að nota peninga skynsamlega fyrir utan það að þetta ruglar allt kerfið hjá ríkinu.

Þetta er bara allt á sömu bókina lært eins og ég gat um áðan, að þau frumvörp sem við erum að ræða í dag leysa engan vanda hjá heimilum og fyrirtækjum landsins eins og ég er búinn að kalla eftir aftur og aftur, bæði fyrir ríkisstjórnarskiptin í febrúar og eftir kosningar. Ég vil að menn fari að taka á þessum vanda. Það er reyndar búið að koma bönkunum í gang. Ég þakka fyrir það, frú forseti, að það sé búið að koma bönkunum í gang. Það er jákvætt skref, mjög jákvætt, allt of seint en það er búið að taka það og vonandi fer eitthvað í gang. En það þarf að gera miklu meira og það þarf að kanna og huga að því hvar skórinn kreppir hjá hinum venjulegu fjölskyldum því það er víða mikill vandi. En þetta frumvarp, ég held að það lagi ekki stöðu eins einasta heimilis, það frumvarp sem við ræðum hér.