137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[18:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um lagafrumvarp um kjararáð o.fl., sem er stjórnarfrumvarp. Í því felst í stórum dráttum að miðað verði við laun forsætisráðherra þegar ákvörðuð eru laun ýmissa stjórnenda hjá hinu opinbera.

Þannig er að við lifum á miklum óvissutímum og eftir að bankarnir hrundu í október hefur umhverfið hér á Íslandi verið frekar óvisst og mikil óvissa í lofti. Á slíkum tímum er svigrúm fyrir ýmsar skrýtnar og hættulegar hugmyndir til þess að komast á blað og verða að raunveruleika. Þetta mál sem við ræðum nú er dæmi um mál sem augljóslega er lagt fram í því skyni að skapa m.a. vinsældir í fjölmiðlum og einhverjir ræðumenn sem töluðu hér á undan mér nefndu þetta lýðskrum.

Hugmyndin í sjálfu sér er eitthvað sem maður kannast við og hefur heyrt áður fleygt, að miða skuli hámarkslaun við ákveðinn fasta sem í þessi tilfelli eru laun forsætisráðherra. Hv. formaður nefndarinnar, Helgi Hjörvar, fór yfir að væri það væri eðlilegt viðmið. Mér þótti þó aðeins á skorta í rökstuðningnum og þætti vænt um að hv. þingmaður færi betur yfir hvers vegna það eru laun forsætisráðherra sem miða skal við í þessu dæmi. Það var ekki alveg í samræmi við andsvar hans sem hann síðan veitti áðan.

Virðulegi forseti. Þegar maður skoðar málið og þau gögn sem lögð eru fram með þessu frumvarpi sést að í umsögn frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að eins og málið var lagt fram í upphafi sé miðað við að með frumvarpinu sparist um 50 milljónir kr. Um þetta snýst málið og þarna er um að ræða launalækkun hjá tólf aðilum. Þetta finnst mér ekki sýna mikla heildarhugsun. Þessar 50 millj. kr. virðast smávægilegar í ljósi þeirra frétta sem berast í dag um þann kostnað sem íslenska ríkið hefur í huga að taka á sig varðandi samningskostnað Hollendinga og Breta. Þegar maður horfir á heildarmyndina sér maður ekki alveg tilganginn með þessum vinnubrögðum. Þegar þetta er farið að snúast um laun nokkurra örfárra handvalinna einstaklinga fer maður að spyrja sig: Hvers vegna er lagt af stað í þessa vegferð og hvert er í rauninni markmiðið? Ég tel að það hafi ekki komið fram í máli formanns nefndarinnar, Helga Hjörvars. Hv. þingmaður heldur væntanlega síðari ræðu sína hér á eftir og það væri ágætt ef þessi rökstuðningur kæmi þá skýrar fram, hvers vegna er lagt af stað? Afleiðingarnar af því ef þetta frumvarp verður að veruleika eru, eins og aðrir hv. þingmenn hafa bent á, að sjálfsögðu þær að það verður minna eftirsóknarvert að sækjast eftir þeim störfum sem hér er um að ræða. Það er hætt við því að meðalmennskan verði alls ráðandi og það er hætta á spekileka eins og alþekkt er þegar betur launuð störf bjóðast annars staðar og möguleikarnir á því að ná árangri eru ekki til staðar.

Jafnframt finnst mér athyglisvert að í frumvarpinu er talað um að laun forseta Íslands falli ekki hér undir. Vissulega veit ég að stjórnarskráin ver núverandi forseta fyrir því að laun hans verði lækkuð á kjörtímabilinu. Engu að síður, ef heildarhugsunin er sú að þetta eigi að senda skilaboð út í samfélagið, þarf jafnt að ganga yfir alla. Þetta hlýtur að vera tíminn til þess að kveða á um lækkun á launum forseta sem tæki þá gildi á næsta kjörtímabili forseta, hver sem það verður. Það væri líka ágætt ef formaður nefndarinnar mundi útskýra hvers vegna ekki var gengið í þessa átt með frumvarpið.

Í nefndarálitinu er fjallað um að meginmarkmið frumvarpsins sé að draga úr launakostnaði ríkisins og að föst laun fyrir dagvinnu skuli ekki vera hærri en föst laun forsætisráðherra. Ég skil þessi sjónarmið, maður hefur heyrt þetta áður hjá vinstri mönnum. Jafnframt er í nefndarálitinu vitnað í ýmsar áhyggjur sem væntanlega hafa komið fram í meðferð nefndarinnar á málinu og frá umsagnaraðilum.

Í nefndarálitinu stendur, með leyfi forseta:

„Áhyggjur komu fram við umfjöllun nefndarinnar um að áhrif frumvarpsins á gildandi ráðningarsamninga væru óljós. Ætti það ekki aðeins við gagnvart þeim sem stjórna stofnun eða félagi sem frumvarpið tekur til heldur gæti það haft óbein áhrif á starfskjör undirmanna. Ríkinu væru aðrar leiðir færar við að lækka laun í gegnum val sitt á stjórnum hlutaðeigandi stofnana og félaga.“

Jafnframt segir þar, með leyfi forseta:

„Áhyggjur komu einnig fram um að frumvarpið hefði í för með sér skerðingu á sjálfstæði dómsvaldsins og réttindi minni hluta hluthafa umfram það sem stjórnarskráin heimilar og að það takmarkaði réttindi launafólks til að semja um starfskjör sín og möguleika ríkisins til að ráða til sín hæft starfsfólk. Enn fremur komu fram ábendingar um að frumvarpið gæti haft neikvæð áhrif á sjálfstæði Seðlabankans og Samkeppniseftirlitsins.“

Mér þykir frekar léttvægt hvernig skautað er fram hjá þessum sjónarmiðum í nefndarálitinu. Þessum áhyggjum er í rauninni ekki svarað og ekki er farið yfir mótrökin gegn þessum sjónarmiðum. Þess í stað segir hér að í ljósi núverandi efnahagsaðstæðna sé í frumvarpinu fólgin eðlileg skammtímaráðstöfun. Ég fór að leita að því hvar kæmi fram að þetta væri skammtímaráðstöfun en ég get einfaldlega hvergi fundið því stað í frumvarpinu né í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram. Það væri því ágætt ef títtnefndur Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, gæti farið yfir hvað er átt við með þessu. Hvað sá nefndin fyrir sér að þessi skammtímaráðstöfun mundi taka langan tíma og hvar sér þess stað? Hvað í lagafrumvarpinu segir okkur að þetta sé skammtímaráðstöfun?

Virðulegi forseti. Meginumtalsefni mitt í dag varðandi þetta mál er að heildarsýnin varðandi þetta stóra verkefni, að taka á ríkisfjármálunum, er ekki fyrir hendi. 50 millj. kr. eiga að sparast með þessu frumvarpi eða jafnvel lægri fjárhæð eins og kom fram í máli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar. Heildarsýnin liggur hins vegar ekki fyrir. Miðað við gögnin sem lögð eru fram með þessu frumvarpi er bara verið kroppa í einhverja tólf einstaklinga í því skyni að slá pólitískar keilur í fjölmiðlum. Þannig lítur þetta út fyrir mér og ég tel að nær væri að leggja fram heildarsýn um hvernig á að brúa þetta bil sem við þurfum að brúa á næstu árum.

Hér þarf að fara fram mikill niðurskurður. Hvers vegna er ekki rætt um hvernig hann skuli fara fram? Þessar 50 millj. duga ekki langt upp í fjárlagahallann. Hvernig sér ríkisstjórnin fyrir sér að farið verði í þessa vegferð? Hvernig sér ríkisstjórnin fyrir sér að farið verði í að skapa meiri gjaldeyristekjur? Um það snýst í rauninni verkefnið. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi það að skapa fleiri störf og aðstæður fyrir þau störf hér á landi? Ég hef ekki séð slíka stefnu. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi það að skapa fleiri störf í kringum orkufrekan iðnað? Það er mikið talað um að það eigi að gerast. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur mikinn áhuga á því að greiða fyrir að fleiri tækifæri verði til hér í orkufrekum iðnaði en miðað við verkin liggur einfaldlega ekki fyrir hvernig sú orkuöflun sem til þarf í þeim geira á að fara fram. Samkvæmt stjórnarsáttmálanum er ætlunin t.d. ekki að fara í virkjanir í neðri hluta Þjórsár að svo stöddu en í stöðugleikasáttmálanum er gert ráð fyrir að farið verði í þessar virkjanir og öllum hindrunum varðandi það mál verði rutt úr vegi fyrir 1. nóvember. Þetta stangast allt saman á og það er eins í þessu og í flestöllum öðrum verkum þessarar ríkisstjórnar, margt er í orði en afskaplega fátt er í raun á borði. Þetta er stórt vandamál vegna þess að við Íslendingar höfum einfaldlega ekki efni á að hafa ríkisstjórn sem stjórnar með þessum hætti.

Við þurfum að hafa fólk við stjórnvölinn sem þorir að taka ákvarðanir og getur vakið von í brjósti fólks um að við eigum fyrir okkur bjarta framtíð hér í þessu landi. Ég hef fulla trú á að við höfum það en til þess að svo megi verða verðum við að grípa þau tækifæri sem fyrir hendi eru. Við verðum að greiða fyrir því að hér verði hægt að fara í frekari orkunýtingu. Við verðum að greiða fyrir því að hér verði hægt að grípa tækifæri t.d. varðandi heilsutengda ferðaþjónustu á Suðurnesjum. Við verðum að grípa þessi tækifæri sem liggja í loftinu vegna þess að þrátt fyrir að erlendir aðilar hafi áhuga á því að koma hingað og fjárfesta bíða þeir ekki endalaust eftir því að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir, sem eru algjörlega ósammála um hvernig eigi að fara t.d. með orkuöflun — þessir erlendu fjárfestar hafa einfaldlega ekki þolinmæði eða tíma til þess að bíða eftir því að stjórnarflokkarnir semji um hvað eigi að gera. Þeir hafa ekki tíma í það og við Íslendingar höfum ekki efni á að bíða eftir því að ríkisstjórnarflokkarnir berji hvor annan til hlýðni í hverju einasta máli sem kemur hingað inn á borð.

Þetta eru einfaldlega ekki boðleg vinnubrögð. Ég hvet þá þingmenn sem sitja á þingi fyrir þessa flokka til þess að leggja fyrir landsmenn heildarsýn varðandi hvernig eigi að fara í þessi mál í stað þess að leggja fram smáfrumvörp varðandi 50 millj. kr. sparnað sem taka á tólf einstaklingum úti í bæ. Hver eru skilaboðin með þessu? Þau eru einfaldlega að það er popúlisminn sem ræður hér ríkjum en ekki það að taka á raunverulegum vandamálum.