137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:41]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta umræðu og hún mun nýtast okkur við frekari umfjöllun um málið. Ég vil þó vegna orða sem fallið hafa um að þetta sé vinstrimannamál halda því aftur til haga að málið á rót sína að rekja til umræðna sem fóru fram í þessum sal m.a. í nóvember sl. milli þess sem hér stendur og þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Árna Mathiesens, sem leiddi á þeim tíma Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi. Ég held þess vegna að þessar hugmyndir eigi í sjálfu sér fylgi að fagna í öllum flokkum sem starfa hér á þinginu.

Vegna þeirra athugasemda sem komu fram m.a. hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur vil ég taka fram að það sem lýtur að dómurum og nefnt er í nefndarálitinu er ekki í raun og veru raunhæft vegna þess einfaldlega að málið skerðir ekki laun hjá neinum dómurum. En í sjálfu sér er ekki gert ráð fyrir öðru en málefnalegri umfjöllun um þau mál og farvegi.

Hvað varðar stjórnendur í einstaka eftirlitsstofnunum getur eftirlitsstarfsemin í landinu að sjálfsögðu ekki verið einhvers konar fríríki eða launakjör æðstu yfirmanna þar verið sérstök og ólík því sem annars staðar gerist í samfélaginu af því að þetta eru eftirlitsstofnanir. Það sem máli skiptir er að þetta sé í faglegum farvegi og á málefnalegum forsendum og um það sé traust umgjörð. Við teljum að svo sé í umfjöllun kjararáðs.

Vegna orða hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um umfang málsins er út af fyrir sig rétt að málið kemur við tiltölulega lítinn hóp og ég held að, kannski fyrir utan forstjóra Landspítalans, það séu ekki miklar efasemdir í röðum þingmanna um að það sé hægt að lækka þau laun sem hér um ræðir með þeim hætti sem lagt er til enda hafi þau þróast umfram það sem eðlilegt má teljast á uppgangstímanum sem hér var. Þegar allur almenningur tekur á sig verulegar launalækkanir er auðvitað eðlilegt að hæst launaða fólkið í kerfinu þurfi líka að gera það.

Vegna tilvísana til þess hversu mikill fjöldi lækna er í þeim hópi sem fara yfir þessi laun og kom fram í ágætri ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar þá er það út af fyrir sig alveg rétt. Hv. þingmaður veit þó líka að nú hefur verið sett niður áætlun í ríkisfjármálum til nokkurra ára sem kallar á gríðarlegar aðhaldsaðgerðir alls staðar í ríkiskerfinu, gríðarlega mikinn sparnað. Ég hygg að menn geti sagt sér það sjálfir að hluti af þeim niðurskurði verður að taka niður yfirvinnu og vaktafyrirkomulag ýmiss konar, bakvaktir og annað þess háttar í stærstu rekstrarþáttum ríkisins. Það mun nánast sjálfkrafa leiða til umtalsverðrar fækkunar í þessum hópi þó að auðvitað kunni eftir sem áður að vera einhver hópur mikilvægra og stundum beinlínis lífsnauðsynlegra sérfræðinga fyrir okkar samfélag sem nýtur hærri launa en forsætisráðherra. Í þessu máli er þó auðvitað fyrst og fremst verið að leggja áherslu á að stjórnendurnir í kerfinu séu ekki á launum langt yfir því sem forsætisráðherra hefur og ég treysti því að við lokaafgreiðslu málsins geti verið nokkurt sammæli um það eðlilega sjónarmið.