137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

framhaldsskólar.

156. mál
[21:03]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar athugasemdir. Forsendurnar sem unnið er út frá í niðurskurði miðast við að næstu þrjú ár verði erfið og svo horfi vonandi til betri tíma. Það var ástæða þess að við settum þetta á þrjú ár, ekki síst af því að okkur, eða a.m.k. mér, þykir þetta óskemmtileg aðgerð og við vonumst til þess að hægt verði að standa við þennan hluta laganna að þremur árum liðnum. Lögunum er að hluta til ætlað að styrkja verknám, ég held að allur þingheimur hafi verið sammála um að það væri mjög mikilvæg breyting, og við vonumst til að kleift verði að uppfylla þessi ákvæði að þremur árum liðnum.

Hvað varðar innleiðingu laganna almennt, þá höfum við skoðað það og ég held að við sjáum fram á að það muni hægjast eitthvað á innleiðingunni. Verulegur þróunarkostnaður fylgir því að innleiða ný lög og í framhaldsskólum er gert ráð fyrir miklum breytingum. Við höfum hins vegar ekki viljað stoppa þróunina og teljum að þar fari fram mjög áhugavert starf. Núna í haust fara a.m.k. tveir tilraunaskólar af stað með innleiðingu nýrra laga en við höfum viljað nýta færið og læra af starfi þeirra. Við reynum að nýta þá fjármuni sem við þó eigum til innleiðingar laganna með sem skynsamlegustum hætti og læra af þeim skólum sem fara áfram en fyrir liggur að við getum séð fram á eitthvað hægari þróun en ætlunin var.