137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

147. mál
[22:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hæstv. ráðherra munum örugglega ekki útkljá ágreining okkar um gálgafrestshluta þessa frumvarps sem ég gerði að umræðuefni. Við höfum tækifæri til að fara mjög rækilega ofan í þá hluti við meðferð nefndarinnar sem ég á sæti. Þar munum við auðvitað kalla eftir þeim lögfræðilegu álitsgerðum sem hafa verið unnar fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og styðja mitt mál.

Hins vegar er hæstv. ráðherra kominn í alvarlega mótsögn við sjálfan sig. Hann sagði: Það voru mistök að hafa ekki aflað sérstakra undanþágna þegar tekin var ákvörðun um að lögfesta matvælaráðgjöf Evrópusambandsins. Hann vísaði til þess að þar með hefði verið hægt að komast hjá því að leyfa innflutning á fersku kjöti. Það sem hæstv. ráðherra er í rauninni að segja er að forsendan fyrir því að fá slíkt fortakslaust bann samþykkt hefði verið að fá undanþágu frá löggjöfinni í þessu veigamikla atriði. Hins vegar var það þannig að öll þau ár sem Íslendingar reyndu að koma í veg fyrir að við þyrftum að aflétta fyrirvaranum varðandi matvælalöggjöfina sem snýr að landbúnaði var það gert vegna þess að við vorum að reyna eftir föngum að tryggja óbreytt ástand. Þegar niðurstaðan varð sú að það væri ekki hægt og að það mundi m.a. setja útflutningshagsmuni okkar í uppnám varð verkefnið fram undan einfaldlega að reyna að búa þannig um hnútana að við gætum varið heilbrigði dýra okkar og matvælaöryggi með því að hafa öflugt eftirlitskerfi með innflutningnum. Niðurstaða sérfræðinga okkar, þar á meðal yfirdýralæknis, var sú að það væri hægt og að það væri mjög samrýmanlegt markmiðum okkar um matvælaöryggi. Þess vegna varð niðurstaðan sú að það væri hægt að fara þá leið að setja varnirnar nógu háar þrátt fyrir að þetta fortakslausa bann sem ekki stenst gagnvart matvælalöggjöf Evrópusambandsins (Forseti hringir.) væri afnumið.