137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

147. mál
[22:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins í þessa umræðu um hráa kjötið, ég komst ekki almennilega til þess áðan, og fagna því banni sem hér kemur fram á innflutning á hráu, ófrosnu kjöti. Hægt er að benda á fleiri álit en hæstv. ráðherra benti á, ekki einungis á lagalega sviðinu heldur einnig á faglega sviðinu hvað þetta varðar — ég nefndi sóttvarnaráð í mínu máli.

Ég hefði hins vegar viljað sjá skýrari texta í frumvarpinu, ekki aðeins heimild ráðherra til að bregðast við. Reyndar er, eins og ég sagði í mínu máli, ótrúlegt að þetta mál sé ekki betur unnið eftir alla þá vinnu sem lögð hefur verið í það, í 30. gr. er meira að segja vitnað til rangrar greinar, 31. gr. a-liðar en ég held að það ætti að vera 32. gr., ef ég man rétt.

Ráðherra kom hér inn á þvinganir Evrópusambandsins og við þekkjum þvinganirnar sem það beitir aðildarríki EES-samningsins, þetta er ekki eina málið. Við þurfum ekki að fara langt til þess að muna eftir ýmsum þeim þvingunum sem við erum beitt, eins og Icesave og annað í þeim dúr. Við ættum að reyna að standa í lappirnar til þess að verja hagsmuni Íslands í þessu máli eins og ýmsum öðrum.

Ráðherra minntist hér aðeins á fyrri ræðu mína varðandi íþyngjandi kostnaðarauka. Hann talaði jafnframt um einföldun og hagræðingu og nefndi þá að það að færa verkefni yfir til Matvælastofnunar gæti gert allt þetta í senn, þrátt fyrir að viðurkennt sé að kostnaðurinn verður meiri og þarf að vera meiri til þess að hægt sé að standa undir almennilegum hluta. Mig langar að nefna í þessu sambandi að það er ekkert einfaldara að senda tvo menn frá Matvælastofnun í Reykjavík, eða örfáum öðrum stöðum, langt inn í land, t.d. til að skoða reykhús sem reykir fisk, þegar hægt er að senda einn mann frá heilbrigðiseftirlitinu. Þennan hluta þarf að kanna betur áður en við hleypum þessu í gegnum þingið og köllum það einföldun.