137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

147. mál
[22:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek bara undir með hv. þingmanni um hversu mikilvægt er að fara í gegnum þau atriði sem hv. þingmaður vísaði hér til. Ég minni þó á að, því miður, þegar maður er kominn í krumlurnar á þessu ESB-dóti er ekki svo gott að sleppa úr þeim. Eins og hv. þingmaður minntist hér á, við erum með Icesave-samninginn, sem er hluti af ESB-dæminu, o.s.frv. Við erum bara svo stödd, því miður.

Þetta er engin óskastaða hjá mér í sjálfu sér. Hins vegar er í frumvarpinu margt faglegt og gott sem við hvort eð er hefðum getað tekið upp á eigin spýtur en er hér í innleiðingu á reglugerðum.

Ég ítreka samt hér í lokin, frú forseti, að við erum þó að leggja fram frumvarp um innleiðingu á matvælalöggjöf Evrópusambandsins þar sem ekki er gert ráð fyrir heimild til þess að flytja inn hrátt kjöt og hráar kjötvörur óheft, eins og önnur frumvörp sem komu fyrir þingið gerðu ráð fyrir. Ég tel því að í sjálfu sér sé sigur að flytja frumvarp þar sem hráa kjötið er úti, byggt á góðum og sterkum lagalegum rökum. Okkur ber skylda til þess gagnvart íslenskum hagsmunum, íslensku búfé, íslenskum búfjártegundum að standa vörð um þessar gersemar okkar.