137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

samgöngumál – Icesave.

[10:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að vera jákvæður í garð hv. þm. Guðbjarts Hannessonar en með lokaorðum sínum breytti hann þeirri afstöðu minni. Ég ætlaði að hrósa hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir yfirvegun í þessum málum m.a. með það að ganga í það að fjárlaganefnd hefði nægan tíma til að fjalla um málin og eru þau vinnubrögð talsvert ólík þeim asa sem virðist hafa verið á því að ljúka málum út úr efnahags- og skattanefnd og utanríkisnefnd eins og hv. þm. Pétur Blöndal vék að. Ég tek það fram að ég sat ekki þessa fundi en miðað við frásagnir þingmanna var um það að ræða að málin voru tekin út í fullkomnu ósætti og upplýsingar sem hafa komið fram á síðustu tveimur sólarhringum sýna að það hefði verið full ástæða til að fjalla lengur um málið og gefst kannski kostur á því ef fjárlaganefnd gefur þessum nefndum meira svigrúm en menn héldu að yrði. En það sem gerist auðvitað í þessu máli í þessari viku, bara þannig að maður setji hlutina í samhengi, er að framan af viku virtist það vera ásetningur forustu ríkisstjórnarinnar að keyra þetta mál í gegn. Það virtist vera og það er ekki hægt að skilja þær ákvarðanir sem voru teknar innan efnahags- og skattanefndar og utanríkisnefndar öðruvísi en svo að það hafi verið reynt að keyra málið í gegn með það að markmiði að ljúka því sem fyrst. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi ella hefði þessum mikilvægu nefndum í þessu máli verið gefinn rýmri tími til að fjalla um málin.

En það sem hefur hins vegar augljóslega gerst er að forusta ríkisstjórnarinnar hefur áttað sig á því að það væri ekki stuðningur í þinginu við málið í því horfi sem það er nú og til að reyna að kæla það mál niður og reyna með einhverjum hætti að ná tökum á málinu þá hefur verið tekin sú ákvörðun að gefa meiri tíma. (Forseti hringir.) Það er gott, það er nauðsynlegt en hins vegar verðum við að hafa í huga að allt það (Forseti hringir.) sem komið hefur fram, fram að þessu frá því að þetta mál kom inn í þingið bendir til að þetta mál sé enn verra (Forseti hringir.) heldur en var í upphafi.