137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

munnleg skýrsla fjármálaráðherra um eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

[11:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að fagna því að hér séu sett fram drög að eigendastefnu en í henni kemur fram hvernig ríkið ætlar að standa að rekstri fjármálastofnana sem það hefur eignast í kjölfar hrunsins. Í stefnunni eða í inngangi að henni kemur skýrt fram að grunnur hennar sé að ríkið þurfi að vera trúverðugur eigandi og að hafið sé yfir vafa að ekki séu pólitísk afskipti af daglegum ákvörðunum.

Ég sakna þess reyndar mjög að það skuli ekki vera eitt af meginmarkmiðum stefnunnar. Það er minnst léttilega á þetta í inngangi en þetta ætti að vera meginmarkmið ásamt öðrum ágætum markmiðum sem þar eru upp talin. Ég mundi leggja til að það kæmi þarna inn sem eitt af fjórum meginmarkmiðum stefnunnar.

Fram kemur í stefnunni að stjórnir og bankaráð skuli koma sér upp þremur nefndum, það eru starfskjaranefnd, endurskoðunarnefnd og áhættustýringarnefnd. Nú er því þannig háttað að endurskoðunarnefnd og áhættustýringarnefnd eru forsenda fyrir því að fjármálastofnunin fái starfsleyfi þannig að það er svolitlu púðri eytt í hluti sem eru raunverulega lögbundnir og látið líta út eins og þeir séu einhverjar nýjungar, sem er alls ekki. Varðandi starfskjaranefnd þá er eða hefur verið starfandi slík nefnd í öllum fjármálafyrirtækjum þannig að það er heldur ekki nýjung.

Þá kemur fram að fjármálafyrirtæki skuli koma sér upp skilvirkum ferlum um innra eftirlit og innri endurskoðun. Í fjármálafyrirtækjum sem eru yfir tiltekinni veltu eða eru með yfir tiltekinn fjölda starfsmanna er skylda til þess að vera með innri endurskoðun. Það er reyndar svo að fjármálafyrirtæki fær ekki starfsleyfi nema ferlar, og þá skilvirkir ferlar, um innra eftirlit og innri endurskoðun liggi fyrir þannig að nýjungin er kannski ekki jafnmikil og mætti skilja af þessu.

Þá kemur að launakjörum og þar verð ég að setja allverulega fyrirvara. Enn og aftur er verið að blanda þeirri vitleysishugmynd sem felst í kjararáði inn í þessa stefnu. Laun bankastjóra fjármálastofnana eða forstjóra fjármálastofnana munu eftir þetta takmarkast af launum forsætisráðherra sem eru 935 þúsund í dag og þessi laun eru ekki og verða ekki samkeppnishæf, um það þarf ekki að deila. Launastrúktúrinn í bönkunum mun taka mið af þessum hámarkslaunum og leiða til þess að laun í ríkisbönkunum verða ekki samkeppnishæf við einkabankana Íslandsbanka og Kaupþing og þeir munu þá raka til sín öllum bestu starfsmönnunum og það verður þá hratið sem verður í ríkisbönkunum. En það er kannski ætlunin, hver veit?

Vítin eru til þess að varast þau. Á sinni tíð voru laun seðlabankastjóra lág í samanburði við þau laun sem giltu í fjármálageiranum og allur launastrúktúrinn í Seðlabankanum miðaðist við þau. Þar eru mörg lög af stjórnendum og þegar kom að sérfræðingunum varð launastrúktúrinn vegna þessara takmarkana þannig að þar voru borguð laun sem voru á engan hátt samkeppnishæf, ekki bara við bankakerfið heldur jafnvel líka við háskólastofnanir. Til þess að laða að hæfa einstaklinga komu upp alls konar undarlegar ráðstafanir, þeir gátu farið í langskólanám á fullum launum, þeir gátu tekið að sér ráðgjöf erlendis á háum launum en samt haldið launum heima á meðan og alls konar furðulegir hlutir komu fyrir sem mynduðu ógagnsæi. Þetta er einmitt það sem verið er að leggja til hérna. Ég vara því eindregið við að blanda kjararáði inn í þetta, stjórnirnar í nýjum fjármálafyrirtækjum eiga að geta beitt þeim meðulum sem þær telja hæfa á hverjum tíma til þess að laða að hæfa einstaklinga. Það er verið að takmarka valdsvið stjórnar óeðlilega mikið með þessu.

Þá virðist að stefnumótunin eigi að eiga sér stað utan fjármálafyrirtækjanna en eins og þeir vita sem eru sæmilega að sér í þessum fræðum fer vel heppnuð stefnumótun þannig fram að hún kemur upp í gegnum fyrirtækið. Starfsmenn eiga þátt í henni, annars verður hún marklaust plagg sem enginn fer eftir. Menn fá ekki stefnu bankans senda í pósti.

Jafnframt vil ég benda á að Bankasýslan er þarna inni eins og ég hef rakið í umræðum, það eru miklir gallar á hvernig standa á að því fyrirbæri. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að í öllum fjármálastofnunum eru til starfsreglur stjórnar sem mikil vinna hefur verið lögð í og strangar reglur og lagarammi gilda um marga þá hluti sem eigendastefnan nær til. Í stefnunni er skýrt kveðið á um að aðskilja beri fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi. Á því eru kostir og gallar sem þarf að ræða mun betur áður en svo stefnumarkandi ákvörðun er sett fram. Það þarf að liggja að baki vel ígrunduð ákvörðun um að skilja ólíka starfsemi að innan banka og get ég þar t.d. bent á Glass-Steagall Act, lög sem sett voru í Bandaríkjunum fyrr á síðustu öld. Þau gengu of langt í þessum efnum og er núna mál manna að bankar með blandaða starfsemi komi best út úr núverandi fjármálakreppu, enda sjáum við ekki neinn fjárfestingarbanka eftir á Wall Street en fjárfestingarbankar voru þá með einhæfa stefnu.

Fyrir mér er þetta plagg ágætis fyrsta tilraun. Það þarf að vinna mun betur og er þá ágætt að hafa til hliðsjónar eigendastefnu Norðmanna og Svía en það eru vel unnin plögg. Hæstv. fjármálaráðherra benti á að það hefði verið gert en þetta er bunkinn sem þessar þjóðir hafa gert og er eigendastefnan þar mun betur unnin en þetta. (Gripið fram í.)

Til að mynda virðist tilgreint í eigendastefnunni hvað á að gerast í framtíðinni en hún á auðvitað að tilgreina hvað nákvæmlega er að gerast í dag til þess að þetta plagg standist tímans tönn. Til þess að stefnan standist í einhvern tíma þarf að ryðja út vitleysu eins og kjararáði og það þarf að hugsa Bankasýsluna mun betur en gert hefur verið. Það er gott að hafa í huga að vegurinn til glötunar er varðaður góðum ásetningi og það ber að hafa í huga þegar eigendastefnan er smíðuð.