137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

munnleg skýrsla fjármálaráðherra um eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

[11:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargerð hans fyrir þeim drögum að stefnu sem hér liggja fyrir og fagna því að hún sé fram komin. Það er gríðarlega mikilvægt á þeim krossgötum sem við stöndum nú á að eigendastefna liggi fyrir af hálfu ríkisins hvað fjármálafyrirtæki varðar og sé skýr. Er sérstakt fagnaðarefni að hæstv. ráðherra skuli leggja hana fram hér í drögum og gefa kost á umræðu í þinginu og umfjöllun í þingnefndum um hana áður en lengra er haldið í vinnunni. Eins og fram kom í máli hv. síðasta þingmanns er mikilvægt um stefnumörkun að hún komi ekki bara upp af gólfinu og í gegnum fyrirtækin, auðvitað á hún að gera það, en það er líka mikilvægt að haft sé sem allra víðtækast samráð í samfélaginu og að sem flestir aðilar séu kallaðir að því borði til þess að lýsa sjónarmiðum sínum til málanna.

Það er liðin tíð sú bábilja að ríkið megi ekki eiga neitt og sú stefna sem hér er fram sett endurspeglar að sumu leyti þá breyttu stöðu og minnir okkur á að það er mikilvægt fyrir ríkið að setja fram eigendastefnu, ekki aðeins gagnvart bönkunum heldur þeirri margvíslegu starfsemi sem fram fer á þess vegum. Ég held að sá grunnur sem hér er fram lagður geti nýst í stefnumörkun gagnvart annarri starfsemi á vegum ríkisins.

Þar eru til að mynda þættir eins og þeir sem snúa að starfsmönnum fjármálafyrirtækja ríkisins, og ég bið nú hv. þingmenn um að láta af þess konar umfjöllun um starfsmenn ríkisfyrirtækja að þeir séu hratið, svo ég vitni orðrétt í hv. síðasta ræðumann, (Gripið fram í.) vegna þess að góða starfsfólkið sé alltaf keypt úr ríkisfyrirtækjunum yfir í einkafyrirtæki. Ég held að m.a. í fjármálageiranum sýni það sig nú að það er ekki endilega samræmi á milli launa manna hvort þeir hafa verið í einkafyrirtækjum eða ríkisfyrirtækjum í fjármálageiranum þegar farsæld þeirra á því sviði er skoðuð og að margur lágt launaður ríkisstarfsmaðurinn hafi skilað ólíkt betra starfi í ríkisfyrirtæki í fjármálageiranum en hálaunaðir menn í einkageiranum. (Gripið fram í.) Alhæfingar af þessu tagi held ég að séu ekki við hæfi í þessari umræðu. (Gripið fram í.)

Ég held hins vegar að þetta sé einmitt það málefni sem við eigum að vera að ræða á Alþingi. Það er gríðarlega brýnt að endurreisn banka- og fjármálakerfisins í landinu takist vel og að hún vinnist sem allra skjótast vegna þess að þetta kerfi er æðakerfi efnahagslíkamans. Að þar séu ákvarðanir skjótar og skilvirkar og uppbygging takist vel, mun ráða svo gríðarlega miklu um hvort og að hve miklu leyti tekst að forða illa skuldsettum atvinnufyrirtækjum og illa skuldsettum heimilum frá því að brotlenda, og þeim mun fyrr sem við náum landi í þessum leiðangri þeim mun betra.

Það eru gríðarlega ánægjulegar fréttir sem koma núna úr uppgjöri á gömlu bönkunum að það geti verið að tveir af þessum þremur bönkum verði þannig að kröfuhafarnir sjái tilefni til þess að taka þá yfir þó að einsýnt virðist að rekstur Landsbankans hafi verið með þeim hætti að enginn verði til þess að taka hann yfir og ríkið og þjóðin sitji upp með altjón af þeirri einkavæðingu ásamt Icesave-samningnum sem hér hefur verið ræddur í allnokkrar vikur. Það minnir okkur á það að þær samningaviðræður sem þingið hefur átt í við sjálft sig um Icesave-samningana þurfa að fara að fá niðurstöðu vegna þess að gerð þeirra samninga er ein af forsendunum fyrir þeirri endurreisn sem hér er verið að vinna að. Þær eru forsenda þess að landið hafi aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum, forsenda þess að erlendir kröfuhafar komi hér að nýrri bankastarfsemi í landinu. Þegar haft er í huga hversu gríðarlega mikilvægt það er að þessi kjarni í efnahagsstarfseminni, fjármálastarfsemin sjálf, komist aftur í samband við heiminn, við lánsfjármarkaði, og geti spýtt blóði út í efnahagslíkamann, geti endurfjármagnað atvinnufyrirtækin hér, geti fjármagnað verkefni til uppbyggingar á störfum fyrir þá nærfellt 20 þúsund Íslendinga sem nú ganga atvinnulausir, er það okkur áminning að hver vika sem við tefjum þessi verkefni er samfélaginu býsna dýrkeypt.

Um leið hefur vaknað sú spurning, nú þegar standa vonir til þess að tveir af þessum þremur bönkum gætu orðið í eigu kröfuhafa, hvort ekki sé þá óþarft að búa til allt þetta skipulag í kringum eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ágætur þingmaður orðaði það þannig í umræðum í gær, held ég, hvort það ætti þá ekki að kalla þetta Landsbankasýsluna fremur en Bankasýsluna því að það væri aðeins einn banki sem ríkið þyrfti að hafa umsjón með. Auðvitað er það ekki svo, fyrir utan Landsbankann er minnihlutahlutur í þessum tveimur bönkum og síðan hlutir í sparisjóðunum og við eigum talsvert langt eftir í land í þeim leiðangri að draga ríkið út af fjármálamarkaðnum. Það fer best á því að það séu einkaaðilar og kraftur þeirra sem eru nýttir til þess að reka fjármálakerfið í landinu og er það fyrir öllum þorra manna hið endanlega markmið í þessum leiðangri. Það er hins vegar algerlega augljóst að það er nokkuð langt þangað til við stöndum frammi fyrir því og þess vegna þarf til skemmri tíma að koma á fót þeirri Bankasýslu og því skipulagi sem gerð er grein fyrir í þessari stefnu til þess að halda utan um þennan leiðangur og halda þessum leiðangri armslengd frá pólitík. Það er gríðarlega mikilvægt að pólitíkin blandist ekki saman við viðskiptin og þær áherslur sem lagðar eru í stefnunni, m.a. á það að þeir sem starfa í fjármálafyrirtækjum á vegum ríkisins leiti ekki til stjórnmálanna um ákvarðanir í einstökum atriðum heldur starfi sú stofnun sem sett er upp eftir góðum stjórnsýsluháttum og menn leiti þangað um ákvarðanir. Það er gríðarlega mikilvægt.

Það verður líka að hafa í huga að það er ekki bara pólitíkin sem ekki má blandast inn í viðskiptin heldur hlýtur það líka að vera okkur mikið umhugsunarefni hversu viðskiptin eru farin að blandast í pólitíkina þegar allur fjármálageirinn er nú í raun og veru á ríkisábyrgð. Fjármálakerfið á Íslandi er að mestu fjármagnað í dag með innstæðum í bönkunum. (Forseti hringir.) Á þeim innstæðum er full og ótakmörkuð ríkisábyrgð og þar af leiðandi er einkavæðing þessarar starfsemi einkavæðing með fullri ríkisábyrgð (Forseti hringir.) og þess vegna er full ástæða til þess að stíga þau skref með fullri varúð.