137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

munnleg skýrsla fjármálaráðherra um eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

[11:43]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Við erum hér komin til að ræða hlutverk og stefnu ríkisins sem eiganda fjármálafyrirtækja en áður en ég vík máli mínu að því er rétt að skoða aðeins í víðara samhengi hlutverk hins opinbera á fjármálamarkaði því að ríkið gegnir auðvitað veigamiklu hlutverki sem ekki tengist beint því að ríkið verður fyrirsjáanlega eigandi fjármálafyrirtækja. Ríkið hefur ekki minna hlutverki að gegna sem regluvörður við lagasetningu og því hlutverki gegnir það auðvitað áfram. Þar gegna lykilhlutverki fyrir hönd ríkisins stofnanir eins og Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn og vitaskuld Alþingi sjálft með lagasetningunni og jafnframt stofnanir eins og Samkeppniseftirlitið og Neytendastofa. Fleiri stofnanir mætti telja upp sem huga að samkeppnissjónarmiðum og neytendasjónarmiðum. Þá skiptir ekki síst máli í ljósi stöðunnar og umræðunnar að hið opinbera gæti að hagsmunum þeirra sem eru nú mjög skuldsettir, hvort sem það eru heimili eða fyrirtæki og eiga í viðskiptum við banka, hvort sem það verða ríkisbankar eða einkabankar eða aðrar lánastofnanir. Ríkið mun því hafa veigamiklu hlutverki að gegna sem ekki birtist í þessari eigendastefnu og við munum án efa þurfa að ræða það hlutverk í þessum sal mjög ítarlega á næstu mánuðum og missirum.

En þegar hugað er að eigendastefnu verður fólk að átta sig á því að það er verulegur eðlismunur á ríkisfyrirtæki og einkafyrirtæki þótt það sé talsverð einföldun er hægt að miða við að einkafyrirtæki horfi fyrst og fremst á hagnað og hafi hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi við rekstur sinn. Það má svo sem vel vera að sitt sýnist hverjum um það en sú virðist vera raunin. Það er hins vegar varhugavert að ætla sér að reka ríkisfyrirtæki á sömu forsendum og reyndar tilgangslítið að hafa rekstur í eigu ríkisins ef markmiðin eiga að vera hin sömu og hjá einkafyrirtækjum. Það blasir t.d. við að nú er það mun mikilvægara fyrir þjóðfélagið að enduruppbygging atvinnulífsins gangi vel, og þar gegna fjármálastofnanir lykilhlutverki, en að það verði verulegur hagnaður af starfsemi t.d. Landsbankans. Þótt það sé í sjálfu sér æskilegt að hann sé rekinn með hagnaði skiptir meira máli að fjármálakerfið styðji vel við endurreisn viðskiptalífsins sem síðar skilar okkur öllum, og þar á meðal ríkissjóði, ávinningi. Hins vegar má ekki kosta til hverju sem er þannig að við rekstur stofnana eins og Landsbankans eða sparisjóðanna, sem munu fyrirsjáanlega komast í eigu hins opinbera að hluta til, þarf auðvitað að gæta aðhalds og taka ekki áhættu umfram það sem nauðsynlegt er. Það hlýtur að vera eðlilegur liður í eigendastefnu að finna eitthvert jafnvægi á milli þessara þátta, þ.e. hins jákvæða sem viðkomandi fyrirtæki skila efnahagslífinu og þjóðfélaginu og svo þess kostnaðar sem hlýst af því að horfa ekki eingöngu til hagnaðarsjónarmiða. Við höfum nú þegar, og höfum haft lengi, fjármálastofnanir sem reknar eru að hluta til á félagslegum grunni eins og t.d. Íbúðalánasjóður og Byggðastofnun. Svipuð sjónarmið verða sjálfsagt uppi að einhverju marki við rekstur á bönkum í ríkiseigu og sparisjóðum í ríkiseigu þótt við viljum væntanlega ekki ganga svo langt að breyta þeim í einhvers konar félagslegar stofnanir einfaldlega vegna þess að kostnaðurinn við það yrði meiri en réttlætanlegt er.

Við rekstur ríkisfyrirtækja þarf ekki eingöngu að huga að markmiðunum með rekstrinum heldur líka umgjörðinni, stjórnsýslu og stjórnarháttum. Það er mat mitt að það fyrirkomulag sem lagt er til bæði með eigendastefnunni og frumvarpi um Bankasýslu sé nokkuð skynsamlegt þótt auðvitað sé það ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk. Við höfum reynt ýmislegt í bankarekstri í gegnum tíðina. Við viljum alveg örugglega ekki hverfa aftur til fyrirkomulagsins sem var undanfarin sex ár en við viljum ekki heldur hverfa til þess fyrirkomulags sem var næstu 60 ár þar á undan með pólitískum bankaráðum og bankastjórum, pólitískum lánveitingum að uppistöðu til og mikilli umræðu um ýmiss konar smáspillingu, laxveiðar og annað slíkt, sem virkar reyndar hjákátlegt í samanburði við það sem gekk á undanfarin sex ár. En hvað sem því líður viljum við ekki heldur endurtaka það þannig að við erum brennd bæði af hrunadansinum sem fylgdi einkavæðingunni undanfarin sex ár og líka af forsögunni um pólitískt bankakerfi sem var einnig kostnaðarsamt þótt það sé reyndar einnig álitamál hvort einkavædda bankakerfið olli meira skaða á sex árum en hið pólitíska bankakerfi gerði á 60 árum þar á undan.

Við stöndum frammi fyrir því að Landsbankinn er nær örugglega á leið í eigu ríkisins og hann er stærsti íslenski bankinn og verður það fyrirsjáanlega eitthvað áfram. Það skiptir því gríðarlegu máli fyrir allt hagkerfið hvernig til tekst með rekstur þess banka. Hið opinbera mun ekki skorast hjá því að reka þann banka mjög vel og auðvitað þarf ríkið einnig að gæta vel að hagsmunum sínum í sparisjóðunum. Ég á reyndar ekki von á því að neinn þeirra verði að fullu í eigu hins opinbera en einhverja hlutdeild mun hið opinbera eiga og aðkomu að stjórnun vegna þeirrar eignarhlutdeildar. Þar þarf einnig að standa vel að málum. Sparisjóðirnir eru vitaskuld miklu minni stofnanir en Landsbankinn en þeir skipta miklu í þeim byggðum sem þeir þjóna og sérstaklega í þeim byggðum utan höfuðborgarsvæðisins þar sem bankarekstur er að öðru leyti mjög lítill eða enginn. Þar verður hið opinbera með aðkomu sinni að gæta þess sem eigandi að þessar stofnanir, sparisjóðirnir, veiti góða þjónustu, enda væri ella ekki völ á neinni fjármálaþjónustu á viðkomandi stöðum.

Það væri hægt að ræða þessi mál lengi en tímans vegna er ekki hægt að gera grein fyrir öllu. Ég vil þó ljúka máli mínu á því að benda á að þegar hið stóra samhengi er skoðað skiptir margt máli. Ég er þegar búinn að nefna hlutverk ríkisins sem regluvarðar og lagasetningarhlutverkið. Nú erum við að ræða hlutverk þess sem eiganda en svo þurfum við að huga að því hvernig til tekst almennt að ná tökum á efnahagsmálum, sérstaklega gjaldeyrismarkaðinum, (Forseti hringir.) stöðugleika í gengi og verðlagi. Það skiptir ekki síður máli en eigendastefnan fyrir það hversu blómlegt (Forseti hringir.) fjármálakerfið verður í framtíðinni.