137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

munnleg skýrsla fjármálaráðherra um eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

[11:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þakkir til hæstv. fjármálaráðherra fyrir að við skulum vera að ræða þessa ágætu eigendastefnu á þinginu og ég fagna því að hún er komin fram, svo langt sem hún nær. Það gladdi mig líka að hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni að þetta væri eigendastefna í drögum og hvatti til þess að við í viðskiptanefnd funduðum um hana. Við höfum reyndar fundað um hana einu sinni og fengið ágæta kynningu á henni frá fjármálaráðuneytinu. En ég vona svo sannarlega að við getum átt um hana fleiri fundi og haft á hana áhrif vegna þess að markmiðin eru góð. En þessi stefna ber það með sér að þetta er skjal í mótun og sett fram miðað við tilteknar forsendur og tiltekinn veruleika sem við erum ekki viss um að verði þar sem hlutirnir breytast svo hratt. Þetta tengist allt saman, eins og hefur verið rætt hér, Bankasýslan, eigendastefnan, eignaumsýslufélagið og sparisjóðirnir, sem við ræddum fyrr á þessu þingi, og ég get tekið undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur að sú röð sem þessir hlutir eru ræddir í er kannski ekki til eftirbreytni. En þetta er erfitt verkefni og hæstv. fjármálaráðherra er kannski nokkur vorkunn að standa frammi fyrir því og þurfa að ákveða hvar á að byrja af því að allt þarf að bíða eftir hinu og þetta kallast allt á. Ég hef því vissa samúð með ráðherranum. Þess vegna er mikilvægt að við ræðum þetta allt í samhengi og að við séum ekki búin að útiloka neitt eða komin á einhverja braut þar sem verklagið snýst allt um að færa hlutina inn í skipulagið. Við verðum að átta okkur á því að við verðum að hafa þetta sem lifandi verkefni.

Á mánudaginn náðist mikilvægur áfangi sem vakti vonir um að uppbygging fjármálakerfisins yrði jákvæðari og betri en ég hef þorað að vona, það var þegar samkomulag stjórnvalda við skilanefndir bankanna þriggja var kynnt. Það voru fyrstu jákvæðu fréttirnar sem við höfum fengið í mjög langan tíma. En það er ekkert fast í hendi og hæstv. fjármálaráðherra tók það sérstaklega fram í gær að það þyrfti að klára stofnun Bankasýslunnar, hann vildi hafa vaðið fyrir neðan sig. Og allt í lagi með það. En það er hins vegar morgunljóst að allar forsendur gætu breyst ef þetta gengur eftir og planið sem lagt var upp með þegar eigendastefnan var sett fram gæti þess vegna orðið allt annað. Þetta plagg, eins ágætt og það er og markmið þess, er í rauninni orðið úrelt. Ég vil nefna nokkur dæmi.

Gegnumsneitt miðast öll vinnan í þessu plaggi við að ríkið sé eini eigandinn og það ræðir ekki um hlutverk eða stefnu ríkisins sem meðeiganda, að ég tali ekki um sem 10% eiganda, eins og stefnir vonandi í að ríkið verði í tveimur bönkunum. Ekki er talað um hvernig þessi markmið eigendastefnunnar muni nást ef ríkið er með 10% hlut. Hvernig ætlar ríkið að geta sett fram allar þær kröfur sem gerðar eru? Tíminn líður alveg ótrúlega hratt og ég er rétt að byrja.

Ég vil leggja á það áherslu að þetta er fínn grunnur og nauðsynlegt að ríkið setji sér skýr markmið en við erum í verkinu miðju. Við þurfum að klára þessa hugsun og sjá hver þróunin verður áður en lengra verður haldið. Annars fer takmarkið að verða það að uppfylla planið (Forseti hringir.) en ekki það sem hæstv. viðskiptaráðherra var að tala um áðan og ég tek undir að við höfum tækifæri til að gera, (Forseti hringir.) að búa til nýtt bankakerfi, ekki eins og undanfarin sex ár eða 60 ár, virðulegi forseti, heldur nýtt bankakerfi. Notum það tækifæri (Forseti hringir.) eins vel og við getum.