137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

munnleg skýrsla fjármálaráðherra um eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

[12:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa umræðu og bregðast við nokkrum atriðum sem hér hafa verið nefnd. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi að það að aðgreina bankareksturinn og meðferð þeirra mála frá hinu pólitíska valdi ætti að vera eitt af meginmarkmiðum stefnunnar. Það er svo sem fullgilt sjónarmið út af fyrir sig en ég vil benda á að fyrirkomulagið sjálft er gagngert sett upp nákvæmlega til þess að ná því fram, þar á meðal og ekki síst að búa til sjálfstæða einingu, sjálfstæða stjórnsýslueiningu í armslengd frá fjármálaráðuneytinu sem haldi eignarhaldið í fjármálafyrirtækjum. Af sjálfu leiðir að margt sem hér er nefnt er hluti starfsreglna fjármálafyrirtækja og sumt af því bundið í lögum eða bundið við starfsleyfisveitingu þeirra. Það breytir ekki því að það getur verið eðlilegt að því sé lyft í hinni opinberu eigendastefnu.

Varðandi launakjör sem hér hafa verið nefnd og það að kjararáð eigi ekki að vera að ákveða laun bankastjóra er verið að móta þá heildarstefnu að laun æðstu stjórnenda fyrirtækja og stofnana í eigu ríkisins almennt skuli ákveðin af kjararáði, óháð forminu sem þar er við lýði samanber það að taka opinber hlutafélög og hlutafélög og sameignarfélög inn undir kjararáð. Ekki stendur til að bakka með þá stefnu. Launin þurfa að sjálfsögðu að vera samanburðarhæf og þannig að hæft fólk fáist til að vinna að þeim störfum en það stendur ekki til að hverfa aftur til 2007, það er mjög mikilvægt að allir hafi það á hreinu. Þeirri stefnu er hafnað hér í þessari starfsmannastefnu. Hér er ekki talað um kaupauka og bónusa heldur um það að byggt sé á eðlilegum framgangi í starfi og mönnum sé umbunað fyrir vel unnin störf á þann hátt sem heilbrigt er. Græðgisvæðingunni er hafnað.

Ætli það sé nú ekki þannig að launin hafi verið eitthvað hærri í Kaupþingi en í Sparisjóði Strandamanna? Það breytir ekki hinu að ólíku er saman að jafna örlögum þessara tveggja stofnana. Það þurfti sem sagt engin ofurlaun til, hvorki í Sparisjóði Strandamanna né Sparisjóði Suður-Þingeyinga til þess að reka þær stofnanir vel og með ábyrgum hætti og mikið mega þeir þakka fyrir sem eru þar í viðskiptum.

Það er lögð hér mikil áhersla á þjónustuhlutverk þessara fjármálastofnana sem ríkið kemur að og sérstakt mikilvægi þess að þær styðji við atvinnulífið og heimili. Að sjálfsögðu kemur það inn á það að eitt af markmiðum ríkisins með þátttöku sinni í þessum rekstri er nákvæmlega það sem hæstv. viðskiptaráðherra kom hér vel inn á. Það er vikið að því að hin nýja stefna feli í sér að aðgreina eigi viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi með skýrum hætti eftir því sem hið síðara er þá við lýði í okkar viðskiptabönkum. Það má færa fyrir því rök að bæði séu kostir og gallar að hafa það svo, en eitt er alveg öruggt og það er að það afstýrir miklum hættum sem við þekkjum núna mjög vel þegar viðskiptabankar helltu sér út í fjárfestingarbankastarfsemi og hrundu svo með stórkostlegum kostnaði fyrir samfélagið sem aðallega leiddi af síðari þættinum. Það er fjárfestingar- og útrásarbrölt þeirra sem kostar nú samfélagið dýrt en ekki það ef þeir hefðu haldið sig við venjulega viðskiptabankastarfsemi.

Ég held að við eigum að setja þetta fyrirkomulag á fót, móta eigendastefnu, setja á fót Bankasýslu og vera með eignaumsýslufélag óháð því hvort ríkið verður 80%, 60% eða 50% eigandi að fjármálakerfinu í heild. Það finnast mér ekki gild rök að við eigum að breyta eitthvað taktinum í þessu þó að svo sé.

Að síðustu bendi ég á að hér er lögð mikil áhersla á jafnréttismál, umhverfismál og samfélagsleg gildi. Ég bendi mönnum á að lesa á bls. 6, bls. 7 og bls. 8 þar sem fjallað er ítarlega um alla þessa þætti. Ef menn vilja styrkja þá enn frekar stendur ekki á mér í þeim efnum.