137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[13:51]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þjóðhagsspá frá sama fjármálaráðuneytinu og við erum að ræða er tekið sérstaklega fram sem og í skýrslu fjármálaráðherra sem hann lagði fyrir þingið ekki alls fyrir löngu var talað um að sá vandi sem við stöndum frammi fyrir í því að ná ríkisfjármálunum saman væri gríðarlegum eins og við vitum. Þar þyrfti að fara sérstaklega vandlega með fjármuni ríkissjóðs þannig að þeir fjármunir yrðu nýttir sem allra best og einskis væri látið ófreistað að draga úr útgjöldum ríkissjóðs án þess að það kæmi niður á velferðarþjónustunni.

Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sagði í blaðaviðtali fyrir hálfum mánuði síðan að hann væri búinn að leita leiða til að draga úr útgjöldum ráðuneytis síns og ætlaði að reyna að koma því þannig fyrir á næsta ári að ekki yrði dregið mikið úr þjónustu við fatlað fólk. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því verkefni sem við stöndum frammi fyrir en einmitt í ljósi þess ítreka ég spurningu mína: Falla 70–80 millj. í þetta undir þá skilgreiningu sem hæstv. fjármálaráðherra sagði í skýrslu sinni að verið sé að nýta skattfé borgaranna með sem allra bestum og skynsamlegustum hætti?