137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

kosningar til sveitarstjórna.

149. mál
[14:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. dómsmálaráðherra var unnið að þessu frumvarpi í vinnuhópi á vegum ríkisstjórnarinnar þar sem komu að embættismenn bæði úr forsætisráðuneyti og dómsmálaráðuneyti auk sérfræðings. Auk þess fengu allir þingflokkar á Alþingi tækifæri til að senda tengiliði inn á þessa fundi og var ég í því hlutverki fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Ég get borið vitni um að vinnan við undirbúning þessa frumvarps var býsna góð og ekki út á hana að setja. Vandlega var farið yfir ýmis álitamál í þessu sambandi og þau rædd. Niðurstaðan var ekki endilega sú að menn væru endilega sammála en hins vegar voru reifuð fjöldamörg álitaefni sem upp komu í þessu sambandi. Þetta samráð, sem var gott og raunverulega til fyrirmyndar, felur hins vegar ekki í sér samþykki eða stuðning, hvorki af minni hálfu persónulega né míns flokks. Ég vil geta þess í upphafi að hér er um að ræða allt annan og vandaðri undirbúning en átti sér stað í aðdraganda frumvarps um persónukjör sem lagt var fram á síðasta vetri og dagaði uppi í þinginu. Þó að ég sé ekki sammála efnisatriðum þess frumvarps sem nú liggur fyrir að öllu leyti og hafi ýmsar athugasemdir og fyrirvara hvað það varðar þá er það þó a.m.k. góður grundvöllur til að ræða málin. Ég tel mikilvægt að allsherjarnefnd fari vandlega yfir það í störfum sínum til að komast að góðri niðurstöðu.

Nú er það markmið ríkisstjórnarinnar að þetta frumvarp verði afgreitt þannig að unnt verði að nota nýjar reglur við kosningar til sveitarstjórna á næsta vori. Það setur auðvitað ákveðna tímapressu á málið. Ég vil hins vegar undirstrika að það er mikilvægt að nægur tími gefist til umræðu í þjóðfélaginu um þessar breytingar því eins og hæstv. dómsmálaráðherra sagði er um grundvallarbreytingar að ræða. Það er verið að gerbreyta fyrirkomulagi við val í sveitarstjórnarkosningum og má segja að grundvöllur kosningarinnar verði með verulega ólíkum hætti því sem við höfum þekkt á undanförnum árum og áratugum. Ég legg því áherslu á mikilvægi þess að málið fái góða umræðu og ekki bara á vettvangi þingnefndarinnar heldur líka í þjóðfélaginu þannig að þau viðhorf sem uppi kunni að vera í samfélaginu nái eyrum þingmanna. Í því sambandi er auðvitað sérstaklega mikilvægt að nefna samráð við sveitarstjórnarmenn. Samband ísl. sveitarfélaga átti fulltrúa, tengilið á þeim fundum voru haldnir í undirbúningi málsins en ég held að víðtækara samráð við sveitarstjórnarmenn sé afar brýnt og mikilvægt. Ég get borið um það að í hópi sveitarstjórnarmanna eru verulega skiptar skoðanir um þetta mál og það er mikilvægt að það endurspeglist í störfum nefndarinnar.

Af því að það er mikilvægt að málið fái góðan tíma og af því að frumvarpið sem slíkt er góður grunnur að þeirri hugmynd sem það byggir á þá er í sjálfu sér jákvætt að málið skyldi koma fram nú á þessu sumri þannig að það sé kostur á að vinna málið fram á haustið og hugsanlega fram eftir hausti. Í því sambandi er mikilvægt að tíminn verði nýttur til að afla umsagna, ýta undir umræður í þjóðfélaginu og þess háttar.

Frá mínum bæjardyrum séð er það jákvæð meginstefna sem hefur verið mörkuð af hálfu ríkisstjórnarinnar með framlagningu þessa frumvarps, og raunar frumvarps til laga um breytingar á kosningum til Alþingis líka, að auka vægi persónukjörs. Ég er persónulega þeirrar skoðunar að það sé á margan hátt mjög jákvætt og í anda lýðræðis að auka áhrif kjósenda á það hverjir það eru sem veljast til kjörinna trúnaðarstarfa, hvort sem er á vettvangi sveitarstjórna eða Alþingis. Við vitum hins vegar að það eru vankantar á þessu og það er auðvitað alltaf spurning hversu langt eigi að ganga í þessa átt. Það er á þeim forsendum sem við eigum að nálgast málið á vettvangi nefndarinnar og fjalla um það, bæði út frá grundvallarprinsippinu, þ.e. hversu mikið vægi persónukjörs á að vera og hvaða tæknilegu útfærsluatriði eru nauðsynleg í því sambandi.

Ég fagna því frumvarpinu þótt ég hafi ýmsa fyrirvara og athugasemdir hugsanlega á síðari stigum við einstakar greinar en ég fagna því að þetta mál er komið til umræðu og tel mikilvægt að vel sé vandað til alls starfs í því sambandi. Ég geri mér grein fyrir því að það eru skiptar skoðanir í þinginu um útfærsluna í þessu sambandi og mér hefur þótt á samræðum við þingmenn að þar skiptust menn ekki endilega eftir flokkslínum heldur gætu verið mismunandi viðhorf innan einstakra flokka. Einmitt þess vegna er mikilvægt að þrátt fyrir að við vitum auðvitað um markmiðið um sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor að við gefum okkur tíma til að fara yfir þau mismunandi sjónarmið í þessu sambandi og getum leyst þetta mál á farsælan hátt án þess að það lendi í hjólförum mikilla flokkspólitískra átaka.