137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

kosningar til sveitarstjórna.

149. mál
[15:06]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að þetta frumvarp er komið fram og að von er á sams konar frumvarpi um kjörið til Alþingis þó að það muni koma seinna vegna þess að það er rétt sem fram kom hérna áðan að ef ætlunin er að persónukjör eigi við í sveitarstjórnarkosningum á næsta vori þarf að leggja frumvarpið fram og reyna að koma því áfram sem fyrst.

Markmið persónukjörs er að auka áhrif og völd kjósandans og þá um leið að auka lýðræðið og ég tel að því beri að fagna að tillögur af því tagi komi fram. Þetta dregur auðvitað úr flokksræðinu um leið en flokkar geta samt sem áður áfram, eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, flokkarnir ráða því náttúrlega hverjir veljast á þessa lista og á milli hvaða manna kjósandinn getur valið. Mér finnst gott að horfa til þess að margt fólk vill ekki vera í stjórnmálaflokkum, það kýs að vera ekki í stjórnmálaflokkum, en með kosningafyrirkomulagi af þessu tagi getur það fólk sem ekki vill vera í stjórnmálaflokkum einnig haft áhrif á það hvaða fulltrúar komast að.

Auðvitað eru margir fylgifiskar og álitamál sem fylgja breytingum af þessu tagi, þetta eru náttúrlega gagngerar breytingar á því hvernig fulltrúar eru valdir til sveitarstjórna eða á Alþingi en í mínum huga eru þeir léttvægir í samanburði við þá lýðræðisbót sem verður af persónukjöri. Þeir þættir sem helst eru nefndir og þarf að líta til eru fjármál stjórnmálaflokkanna, að það þurfi að setja reglur um þau. Sumir vilja kalla það að prófkjörin færist yfir á kosningadaginn. Ég er nú ekki alveg sannfærð um að það sé nákvæmlega rétt útlistun en ég er hins vegar sammála því að það þarf að líta til reglna um fjármál stjórnmálaflokka í kjölfar breytinga af þessu tagi.

Margir hafa áhyggjur af því að kynjahlutföll breytist eða að flokkarnir geti ekki haft áhrif á kynjahlutföll því að ekki er hægt að hafa fléttulista. Rannsóknir vísa ekki allar í sömu átt með það en ég tel að það kerfi sem hér er lagt til, sem nýtir atkvæðið mjög vel, forði því að ekki verði hægt að virða kynjahlutföll eða að þau skili sér ekki. Svo ber einnig að huga að því að flokkarnir ráða eftir sem áður hverja er hægt að velja þannig að þeir geta þá gætt þess að hlutföll kynjanna séu jöfn í þeim hópi.

Þriðja atriðið sem oft er nefnt í þessu er að sitjandi fulltrúar hafi forskot fram yfir aðra. Væntanlega er það staðreynd sem erfitt er að koma í veg fyrir hvaða kerfi sem notað er nema einfaldlega fólki sé bannað að sitja nema eitt eða tvö kjörtímabil.

Aðferðin sem hérna er lögð til í persónukjöri er mjög einföld fyrir kjósandann. Kjósandinn getur annaðhvort kosið flokk og þarf þá ekki að raða, sem þýðir í rauninni að þeir sem raða fyrir þann sem kýs flokkinn og raðar ekki. Síðan kemur kjósandinn í kjörklefann og hann merkir við í forgangsröð, hann merkir við eitt, tvö og þrjú og það er forgangsröð, þennan vil ég helst, svo vil ég þann næsta. Þetta er mjög einfalt fyrir kjósandann þegar hann kemur í kjörklefann þó svo að talningarkerfið sjálft sé nokkuð flókið, en það eru flest kosningakerfi út af fyrir sig, þau verða flókin þegar kemur að talningu. Það er flókið með útstrikanir í dag þannig að ég tel að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því. Þetta kerfi virkar þannig að ef frambjóðandi hefur fengið þau atkvæði sem þarf til að komast að þá fara umframatkvæðin á þann frambjóðanda sem kjósandinn setur í annað sæti eða þriðja sæti og þannig koll af kolli þannig að atkvæðið nýtist að fullu.

Ég tel svo sem ekki þörf á að hafa mörg orð um þetta meir, eins og ég sagði áður fagna ég frumvarpinu. Hins vegar er ég sammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að því leytinu til að mín skoðun er sú að það ætti að vera hægt að velja þvert á lista. Það tel ég að eigi að vera markmiðið og stefna beri að en það er ekkert að því að taka eitt skref í einu ef annað er ekki í boði. Ég vona bara að ekki verði langt í það að breytingar verði gerðar í þá átt að kjósandinn hefði kost á því að velja fólk af ýmsum listum. Það góða við það kosningakerfi sem hér er lagt til er að mjög auðvelt er að breyta því yfir í það kerfi að hægt sé að velja á milli lista.

Þá vil ég líka taka undir orð hv. þm. Birgis Ármannssonar um að þetta þarf náttúrlega að ræða vel í þjóðfélaginu og kynna vel þannig að kjósendur átti sig á því sem hér er og við öll — ja, við erum náttúrlega kjósendur líka — þannig að við öll áttum okkur á þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Og þó að hér hafi verið skipaður sérstakur starfshópur með fulltrúum allra flokka þarf þetta frumvarp náttúrlega að fá þinglega meðferð og ég á von á því að skoðanir þingmanna á þessu geti gengið mjög þvert á flokkslínur.

Ég vil sem sagt bara þakka fyrir að þetta frumvarp er fram komið og á von á góðum umræðum í allsherjarnefnd um það.