137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

ríkisábyrgð á Icesave-samningnum.

[15:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. forsætisráðherra sem fer fyrir ríkisstjórninni sem lagði fram frumvarpið um ríkisábyrgð á Icesave-samningnum. Frá því að sá samningur kom fram hefur stjórnarandstaðan bent á galla á honum, mistök sem gerð voru í samningagerðinni sem þarf að leiðrétta. Það er sama hvort bent hefur verið á ríkisábyrgðina fyrir lántökunni í heild sinni sem mikill vafi er um að nokkur lagaleg skylda sé til að fallast á, efnahagslegar forsendur samninganna eða uppgjörsákvæði sem hefur verið til umfjöllunar að undanförnu — alltaf hefur ríkisstjórnin komið með svör, vísað öllum athugasemdum á brott sem misskilningi, haldið á lofti í reynd málstað andstæðinga okkar í þessu máli, viðsemjenda okkar Íslendinga.

Nú hefur málið verið til umræðu í þinginu í langan tíma og hefur lítið þokast og í dag kom formaður fjárlaganefndar fram og sagðist efast um heilindi stjórnarandstöðunnar í þeirri samvinnu sem á sér stað þar, efaðist um að menn ynnu í reynd að einhverri lausn á málinu.

Augljóst er að þær tillögur sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa taka mið af þeim athugasemdum sem haldið hefur verið á lofti og ríkisstjórnin hefur viðstöðulaust og alltaf vísað á brott. Þegar núna er kallað eftir viðbrögðum frá stjórnarandstöðunni og tillögum er þá, hæstv. forsætisráðherra, ríkisstjórnin loksins nú tilbúin til að fallast á að gerð hafi verið mistök í samningnum, að samninginn þurfi að leiðrétta og laga og að þingið hafi svigrúm til að koma honum í það lag, þeirri ríkisábyrgð sem málið snýst um í það horf sem tekur mið af þeim athugasemdum sem (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan hefur haft frammi?