137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

2. fsp.

[15:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að útskýra það hvernig aukin skuldsetning eigi að gera okkur auðveldara til að fá lán í framtíðinni og hvernig aukin skuldsetning í erlendri mynt eigi að styrkja gengi íslensku krónunnar. Eins og ég nefndi áðan þá var það einmitt þessi aðferðafræði sem okkur svo í koll. Það var einmitt þetta, þ.e. óhófleg lántaka í erlendri mynt til þess að halda uppi gengi gjaldmiðilsins eða með þeim afleiðingum sem kom okkur í þau gríðarlegu vandræði sem við erum í nú. Á þessari braut ætlar ríkisstjórnin, að því er virðist, að halda áfram.

Það má ekki nota gjaldeyrisforðann, eftir því sem sagt er, til þess að halda uppi genginu og viti menn af því að það megi ekki þá skiptir hann náttúrlega engu máli. Maður hefur hins vegar grun um að gjaldeyrisvaraforðinn verði notaður til þess að kaupa upp gengið og þá eru menn að gera nákvæmlega það sama og fyrirtæki gera þegar þau taka lán til þess að kaupa hlutabréf í sjálfu sér. Slíkt er ekki sjálfbært og getur aðeins leitt til enn stærra hruns.