137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

2. fsp.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst að hv. þingmaður geti ekki borið saman óhóflega lántöku sem var hér á umliðnum árum meðal annars fyrir tilstilli bankanna sem hefur haft áhrif til þess að leiða okkur í þetta hrun og kreppu sem við erum í við það að við séum nú og hér að taka lán til þess að styrkja gjaldeyrisforðann. (Gripið fram í.) Það er bara algjörlega ósamanburðarhæft. Ég ætla að vekja athygli hv. þingmanns á því ef það hefur farið fram hjá honum sem fram kom í fréttum í gær að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins leggur mikla áherslu á það að við eflum okkar gjaldeyrisforða og tökum þessi lán sem við (Gripið fram í.) höfum ekki enn fengið inn til landsins, sem er meðal annars forsenda þess að fá inn nýtt fjármagn í landið til atvinnuuppbyggingar. Ég bið því hv. þingmann að bera ekki saman svart og hvítt í þessu efni. (Gripið fram í: Er Vilhjálmur forsætisráðherra?)