137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir tók sæti mitt í allsherjarnefnd þegar þetta nefndarálit var afgreitt og skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara. Ég er hjartanlega sammála því og hefði gert það sama ef ég hefði ekki verið bundin annars staðar þegar þessi fundur fór fram og vil gera grein fyrir fyrirvaranum. Hann varðar 6. breytingartillöguna þar sem segir að að svo komnu verði Matís ekki flutt undir fjármálaráðuneytið eins og önnur félög í eigu ríkisins. Rök landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins gegn því að það yrði gert var að fram undan væri niðurskurður þannig að það gæti þurft að breyta stofnanakerfi innan ráðuneytisins.

Við hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir erum sammála því að það kunni að koma til niðurskurðar en það eigi ekki einungis við um þetta ráðuneyti heldur önnur og að endurskoða þurfi verkaskiptingu milli fleiri ráðuneyta. Við sjáum þess vegna ekki ástæðu til þess að þessi breyting sé sérstaklega felld út úr þessu frumvarpi.