137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn til hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar sem þá var hæstv. viðskiptaráðherra þegar það gerðist sem fyrirspurnin snýr að. Icesave-reikningarnir sem við fjöllum mikið um voru stofnaðir í Hollandi alfarið í hans ráðherratíð. Hann var yfirmaður Fjármálaeftirlitsins. Þeir voru í gangi frá maí 2008 til september 2008.

Í Morgunblaðinu 13. október 2008, viku eftir hrun, er eftirfarandi haft eftir hæstv. þáverandi ráðherra, með leyfi frú forseta:

„Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir þessa lausn óumflýjanlega. Um sé að ræða þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Íslendingar hafi þurft að semja um“, þ.e. að ábyrgjast 600 milljarða vegna Icesave.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra í fyrsta lagi: Hvaða nauður ráku hann til að gefa slíka yfirlýsingu? Í öðru lagi: Hvaðan kom honum sú vitneskja og þekking að það væri þjóðréttarleg skuldbinding Íslendinga að greiða þessa reikninga? Í þriðja lagi: Hafa nýrri upplýsingar breytt þeirri skoðun hans og getur hann gefið yfirlýsingu um að þetta eigi ekki lengur við?