137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Glaður skal ég útskýra fyrir hv. þingmanni afstöðu þarsíðustu ríkisstjórnar í þessu máli. Hann þjónar að sjálfsögðu sinni lund. Þess vegna spyr hann mig að þessu en ekki sína eigin fyrrverandi (Gripið fram í.) og núverandi flokksbræður. Það eru enn þá haldnir landsfundir og flokkseigendafundir í Sjálfstæðisflokki sem þingmaðurinn sækir væntanlega enn þá. (Gripið fram í.) En það sem skýrir þá afstöðu sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði í þessu máli kemur m.a. fram í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu 8. október 2008, fimm dögum áður en sú frétt birtist sem þingmaðurinn vitnaði í áðan. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin ítrekar að ríkissjóður mun styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við öflun nægjanlegs fjár.“

Hitt sem olli afstöðu fyrrverandi ríkisstjórnar umfram allt annað í þessu máli er fyrst og fremst tilskipun sem þetta byggir á og olli því m.a. að fjármálaráðherra, fyrrverandi seðlabankastjóri og fleiri skrifuðu undir samkomulagið í nóvember. Alþjóðagjaldeyrissjóðssamkomulagið var einnig gert á þeim forsendum sem þingmaðurinn nauðaþekkir þótt hann kjósi að ræða þessi mál við aðra en sína eigin félaga þegar hann veltir fyrir sér afstöðu síðustu ríkisstjórnar. Tilskipunin tryggir sparifjáreigendum innstæður upp að lágmarki 20 þúsund evrur var innleidd 21. desember 1999 athugasemdalaust af 51 þingmanni og m.a. hv. þm. Pétri H. Blöndal sem lét ekki svo lítið að hafa nokkrar einustu efasemdir um þetta þá.

Ýmsu öðru í fyrirspurn hans mun ég koma að síðar en þetta tvennt sérstaklega veldur því að sú ríkisstjórn sem þá sat og rætt er um hafði þessa afstöðu.