137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni vil ég kveðja mér hljóðs undir þessum lið til að árétta það, og ég held að það skipti máli að við hér inni séum meðvituð um það, að sú túlkun hefur komið fram nokkuð oft, m.a. hjá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar, að búið sé að gera samninga um Icesave. Það sé hlutverk okkar þingmanna að stimpla og ganga frá vegna þess að búið sé að skuldbinda þjóðina til þess en sú túlkun á ekki rétt á sér. Framkvæmdarvaldið er búið að ganga frá ákveðnum samningum og leggja þá fyrir þingið en það skiptir afskaplega miklu máli, virðulegi forseti, að við lítum ekki svo á að við stöndum frammi fyrir orðnum hlut og það sé ekki okkar að fara vandlega yfir málið.

Sömuleiðis skiptir máli að vekja athygli á því að það eru ekki aðrir hagsmunir í veði sem eru stærri en þessir samningar og það frumvarp sem hér liggur fyrir. Ég vona það, og beini þess vegna ekki orðum mínum að neinum sérstökum þingmanni, að við séum öll sammála um að þannig sé málum fyrir komið og við að vinnum að þessu máli á næstu dögum. Vonandi fáum farsælan endi á því.