137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það virðist vera mikill misskilningur í gangi hjá stjórnarþingmönnum varðandi þetta strandveiðimál. Eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði áðan sýnir reynslan okkur að það eru svo margar landanir og það eru svo mikil umsvif og líf við hafnir landsins. Það er nákvæmlega þetta sem kristallar óhagkvæmnina í þessu kerfi, það eru miklu fleiri bátar, miklu fleiri landanir og það má kannski líkja þessu við að það sé álíka óhagkvæmni og að keyra grús í grunn á húsi og fylla hann og nota til þess hjólbörur eða vörubíl.

Það er kannski stefna Samfylkingarinnar í þessum málum að fara það langt aftur til fortíðar, því að margt í stefnu hennar bendir til þess, þegar kemur að atvinnumálum alveg sérstaklega. En þetta er eins og að pissa í skóinn sinn, virðulegi forseti, þetta er í raun ekkert annað. Talað er um að búið sé að landa 4.000 tonnum sem er náttúrlega einhver misskilningur þegar vitnað er í hafnarstjórann af því að heildarkvótinn í þessu er 4.000 tonn, þ.e. 3.990 tonn. Það er verið að skera niður kvóta á móti þessu. Í þessum niðurskurðarkvóta í ýsu fyrir næsta ár liggur fyrir að það verður erfitt fyrir vinnslur úti á landi og smábátaútgerð að afla sér nægilegs fiskjar, nægilegs kvóta til að geta veitt fisk og skilað til landvinnslu.

Það kom ítrekað fram í ummælum margra sveitarstjórnarmanna sem komu til sjávarútvegsnefndar meðan þessi umræða var í gangi að þeir höfðu miklar áhyggjur af því að grunninum yrði kippt undan atvinnustarfsemi í byggðarlaginu. Það liggur núna fyrir að það er nákvæmlega það sem mun gerast. Þessi umsvif munu kalla á að það verður miklu erfiðara að stunda minnibátaútgerð og fiskvinnslu úti á landi í vetur en var, m.a. af þessum orsökum. Það er því mjög nauðsynlegt (Forseti hringir.) að við skoðum þetta mál. Einnig þarf, eins og ítrekað hefur komið fram í umræðu hjá okkur sem er annt um öryggismál sjómanna, að líta alveg sérstaklega til þess hlutar eins og ítrekað (Forseti hringir.) hefur komið fram í fjölmiðlum.