137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[14:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér við 3. umr. frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um Bankasýslu ríkisins. Ég vil byrja á því að þakka hv. formanni nefndarinnar, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, fyrir það hversu vel nefndin vann í þessu máli milli umræðna. Haldnir voru, eins og hún sagði, tveir fundir, fjöldi gesta kom og var unnið samhliða umræðu um eigendastefnu ríkisstjórnarinnar. Ég verð að segja að sú vinna var alveg ágæt og þakka fyrir hana.

Sú vinna öllsömul gerði þó ekkert til að breyta skoðun minni á þessu frumvarpi. Það liggur fyrir að hér er um grundvallarágreining að ræða milli meiri hlutans og okkar í minni hlutanum, alla vega okkar sjálfstæðismanna, vegna þess að ekkert sem fram kom í vinnu nefndarinnar hefur breytt þeirri skoðun minni. Nú ætla ég að lýsa upplifun minni af því sem þarna kom fram.

Ástæða þess að við báðum um að málið yrði tekið til nefndar á milli umræðna var ekki síst vegna þess að í millitíðinni hafði tvennt gerst: Eigendastefna ríkisstjórnarinnar var komin fram og samkomulag hafði náðst við kröfuhafa um að hugsanlega tækju þeir yfir tvo af þremur bönkum sem nú eru í ríkiseigu og þess vegna þótti okkur í minni hlutanum ástæða til þess að bíða með þetta mál þar til skýrt yrði hvert eignarhald yrði á bönkunum. Það sem mér finnst koma fram í þessu er hálfgerð vantrú stjórnarmeirihlutans á þessu samkomulagi og það óttast ég. Mér finnst sem gestir þeir sem hlynntir voru stofnun þessarar Bankasýslu vildu gera það og fannst ekki vera breyting á því að þrátt fyrir að þetta samkomulag lægi fyrir að betra væri að hafa heimildina til að stofna bankasýsluna en ekki og vonandi þyrftum við ekkert að nota það.

Ég skrifaði reyndar eftir Mats Josefsson hinum sænska, sem margir vilja meina að sé hugmyndafræðingurinn að þessari Bankasýslu — ég vil ekki gera honum upp skoðanir en hann talaði mikið um að enn væri mikið óöryggi um hvort þetta samkomulag við kröfuhafana næði fram að ganga, það kæmi ekki í ljós fyrr en í lok september. Þegar ég spurði hann hvort það væri þá ekki best að geyma þessa stofnun þangað til sagði hann að það væri ekkert verra að hafa heimildina og að hún lægi þá bara þögul, „dormant“, sagði hann á ensku, að hún lægi bara kyrr í ríkiskerfinu en að þurfa að byrja aftur á þessu. Mér finnst það ekki lýsa miklu trausti á þetta ágæta samkomulag sem ég bind miklar vonir við og vona að nái fram að ganga.

Mats Josefsson talaði jafnframt um launaþáttinn, það atriði sem hann gerði athugasemd við þegar hann kom fyrir nefndina í fyrra skiptið. Hann hafði áhyggjur vegna þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að laun í ríkiskerfinu mættu ekki vera hærri en laun hæstv. forsætisráðherra. Sú stefna væri til þess fallin að gera það erfitt að fá hæft fólk og sérstaklega erlenda aðila í starf hjá Bankasýslunni. Það er enn þá vandamál, sagði hann, það yrði mögulega erfitt að fá erlenda ráðgjöf og erlenda sérfræðiþekkingu. En hann opnaði á að það væri kannski leið fram hjá þessu sem væri sú að ráða ráðgjafa, hvort sem það væri tímabundið eða öðruvísi.

Við sjálfstæðismenn höfum gagnrýnt frumvarp um kjararáð mjög mikið vegna þess að í því felist nokkuð mikil hræsni, að það sé erfitt í framkvæmd og að það sé popúlismi. Ég spyr þá: Er þetta leiðin sem farin verður til þess að komast hjá þessum ólögum um kjararáð, að ráða bara ráðgjafa sem senda reikning? Það verður ekkert hámark væntanlega á því. Hvernig ætla menn að tryggja að þessi löggjöf standist? Er það bara sá sem er á launum hjá ríkinu sem má hafa ákveðið hámark en svo getum við verið með á hinni hendinni launaða ráðgjafa en af því að þeir eru ekki í fastri vinnu mega þeir hafa eins há laun og þeim sýnist? Það er atriði sem ég vil vekja athygli á og kom fram í máli Mats Josefssons.

Annað sem hann sagði og ég vil vekja athygli á hér, að það væri engin ástæða til að „starta“ stofnuninni fyrr en í haust eftir 30. september þegar þetta liggur allt saman fyrir. Hann vildi hafa heimildina og þar er ég ósammála honum, en hann sagði að ekki þyrfti að setja þetta á fót fyrr en í haust og það kemur kannski heim og saman við það sem er að gerast varðandi eignaumsýslufélagið. Fulltrúi fjármálaráðuneytisins sagði á einhverjum fundi nefndarinnar að það væri enn þá óstofnað þannig að þá fer þetta upp í hillu óstofnuðu félaganna, óstofnuðu ríkisstofnananna sem ríkisstjórnin er að setja á fót núna. Það finnst mér slæmt og það er í grunninn það sem ég geri athugasemdir við og hef gert alveg frá upphafi þessa máls og ítreka hér: Ég er algjörlega þeirrar skoðunar að við eigum ekki að setja á fót ríkisstofnanir til þess eins að hafa heimildina. Ég hljóma eins og biluð plata en mér þykir þetta það stórt og mikilvægt atriði að ég hamra á því hér eina ferðina enn.

Svör gestanna sem komu á fund nefndarinnar voru nokkuð fyrirsjáanleg. Það voru þeir sem höfðu verið jákvæðir í garð frumvarpsins sem voru það áfram og þeir sem voru neikvæðir á fyrri stigum voru ekki sannfærðir, bæði Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja, voru á móti. Samkeppniseftirlitið hafði aðeins tónast niður vegna ákvæða í eigendastefnunni en leggur mikla áherslu á að samkeppnismálunum verði vel sinnt. Viðskiptaráð Íslands komst því miður ekki á fundinn en ég skil það þannig að þeirra afstaða sé enn óbreytt.

Fulltrúar frá bönkunum nýju mættu og ræddu aðallega eigendastefnuna en einnig frumvarpið um Bankasýsluna. Það er skemmst frá því að segja að Íslandsbanki var tiltölulega hlutlaus í afstöðu sinni og þótti ágætt fyrir stjórnarformann bankans að hafa þessa Bankasýslu til að leita til ef þeir lentu í vandræðum. Eins var Kaupþing tiltölulega jákvætt en bankaráðsmenn frá Landsbankanum ítrekuðu afstöðu sína sem er mjög neikvæð. Ég verð að segja að atriðin sem þeir gerðu athugasemdir við fundust mér vera allrar athygli verð og þá sérstaklega það að þeir undruðust ef Bankasýslan yrði að lögum hvaða tilgangi bankaráðin mundu þá þjóna. Þeir lögðu á það áherslu að þarna gætu orðið óskýr valdmörk á milli Bankasýslunnar og bankaráðsins og óskýr valdmörk og óskýr ábyrgð leiða til skorts á aðgerðum. Ég tek undir það að þarna gæti hver bent á annan í erfiðum málum og þar að auki komið í veg fyrir að hlutirnir verði framkvæmdir vegna þess að menn eru ekki með það á hreinu hver beri ábyrgð og hver hefur valdið.

Einnig var á það bent að það gæti brotið gegn hlutafélagalögum ef ríkið í krafti stærðar sinnar fær betri upplýsingar en aðrir hluthafar, sem gæti gerst í gegnum Bankasýsluna. Það gæti verið gríðarlega hættulegt. Þetta eru atriði sem meiri hlutanum þótti ekki ástæða til að taka tillit til. Stærsta athugasemd þeirra var sú að bankaráðin yrðu óþörf með tilkomu Bankasýslunnar. Það er margt til í því að tilgangurinn með bankaráðum ríkisbankanna verður í besta falli mjög óljós.

Frú forseti. Mér líður dálítið eins og ég sé í uppeldishlutverkinu. Einhvers staðar verður maður að hætta að ala barnið upp og hleypa því út í lífið. Ég er búin að berjast um á hæl og hnakka við að koma einhverju viti inn í þetta blessaða frumvarp, mér hefur ekki orðið mjög ágengt. Það sem mér hefur þó orðið ágengt við er að þessi sjónarmið hafa komið fram.

Ég vona svo sannarlega að þetta verði ekki til þess að draga endurreisn íslensks bankakerfis og íslensks efnahagslífs og ég vona svo sannarlega að þarna verði ekki eitthvert allsherjarríkisbákn stofnað sem erfitt verður að afnema og ég vona svo sannarlega að Bankasýslunni, verði hún stofnuð, farnist vel. Hins vegar hef ég miklar efasemdir um það en eins og í barnauppeldinu getur maður predikað fyrir unganum sínum að feta ákveðnar brautir, maður getur lagt þeim lífsreglurnar, en kjósi hann að fara ekki eftir því er erfitt að standa í þessu. Ég lít svo á að meiri hlutinn verði að bera ábyrgð á þessu sjálfur. Barnið er komið á þann aldur að það verður að standa á eigin fótum. En eins og í öllu góðu uppeldi er allt í lagi að koma til baka ef króganum mistekst og við skulum hjálpa ykkur og leiða ykkur á réttar brautir. Ég lýsi mig reiðubúna til þess að bæta úr og er búin að vara við öllum þeim atriðum, held ég, sem ég tel vera að þessu máli og höfða til skynseminnar eina ferðina enn um að það er enn hægt að koma í veg fyrir að þessi Bankasýsla verði að veruleika. Ég hvet ykkur til þess að hlusta nú á uppeldisráðin frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.