137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[14:47]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér í 3. umr. frumvarp um Bankasýslu ríkisins. Þetta er síðasta umræða um þetta mál sem við höfum rætt mikið á undangengnum vikum og mánuðum á þessu þingi og tengist í raun og veru öðrum skyldum málum sem er til að mynda það sérstaka félag sem nú hefur orðið að lögum, frumvarp til laga um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja. Samkvæmt því frumvarpi getur Bankasýsla ríkisins mögulega haft yfirumsjón með því félagi, sem reyndar hefur ekki verið stofnað enn.

Nú á sem sagt að knýja þetta mál hér fram í andstöðu við stjórnarandstöðuna sem hefur talað fyrir því að við þyrftum betri tíma til þess að fara yfir þessi mál. Við þyrftum að fá að sjá hverjar lyktir mála verða varðandi yfirtöku erlendra kröfuhafa á íslensku bönkunum og komið hefur fram að sú vinna á að vera búin fyrir lok septembermánaðar. Ég hef ekki séð neina ástæðu til þess aðra en þá að geyma þetta mál þangað til við höfum það á hreinu hverjar lyktir þeirra mála verði. Mér finnst í raun og veru of mikill hraði hafa verið á þessu máli og við þurfum að staldra við.

Til að mynda er það svo, til þess að við höfum alla heildarmyndina og til að sjá á hvaða vegferð ríkisstjórnarflokkarnir eru, að eigendastefna ríkisins hefur núna verið kynnt fyrir viðskiptanefnd. Hún liggur þar til umsagnar eða nefndin getur skilað sínu áliti hvað eigendastefnuna varðar. Ég hefði haldið að það væri ágætt að hafa eigendastefnuna fyrir framan sig þegar kemur að ákvörðunum sem þessum. Það er því margt óljóst og auðvitað er það gríðarlega stórt verkefni sem bíður stjórnvalda að endurreisa íslenskt bankakerfi, en mér finnst að það þurfi að leggja meira á sig. Ég var á þarsíðasta fundi nefndarinnar þar sem kom fram beiðni um að Mats Josefsson kæmi fyrir nefndina og við mundum fá fleiri umsagnir og álit frá Samkeppnisstofnun áður en kæmi til lokaafgreiðslu málsins, sem nú liggur væntanlega fyrir.

Í grundvallaratriðum deilum við um ákveðna framtíðarsýn í þessum efnum. Hér er verið að stofna, setja á fót Bankasýslu ríkisins sem á að hafa yfirumsjón með ríkisbönkunum og fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins. Rekstrarkostnaður þessarar stofnunar er áætlaður á næstu fimm árum um 400 millj. kr. Ég tek undir það sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir benti á hér: Hver verða valdmörkin á milli Bankasýslu ríkisins og bankaráða ríkisbankanna eða ríkissparisjóðanna eða hlutafélags sem á að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja? Hver eiga valdmörk að vera á milli stjórna þessara fjármálafyrirtækja ríkisins og Bankasýslu ríkisins? Það eru gríðarleg völd sem felast í því að stýra fjármálastofnunum ríkisins, sérstaklega í ljósi þess að í dag hefur ríkið yfir 90% markaðshlutdeild á fjármálamarkaðnum, mun jafnvel auka það í níutíu og eitthvað prósent verði það að veruleika að ríkið taki yfir fleiri sparisjóði eins og hugsanlegt er að geti orðið og ekkert ótrúlegt í raun og veru.

Við þurfum að fara mjög vandlega yfir þessi mál því að við erum að tala hér um grundvallaratriði í uppbyggingu íslensks samfélags til framtíðar, hvernig við ætlum að reisa nýtt Ísland á þeim efnahagslegu rústum sem við horfumst í augu við. Þá erum við komin að einu lykilatriði sem við framsóknarmenn höfum talað fyrir á undangengnum mánuðum hér á þingi, því miður fyrir daufum eyrum stjórnarliða. Það snertir skipan stjórnar Bankasýslu ríkisins og reyndar annarra fjármálafyrirtækja ríkisins. Ég hef talað fyrir því í mörgum ræðum hér að mér finnst óeðlilegt að einn ráðherra eigi að skipa stjórn Bankasýslu ríkisins. Einn ráðherra, fjármálaráðherrann, á sem sagt að skipa þrjá aðila sem vissulega eiga að uppfylla hæfisskilyrði, ég dreg ekkert úr því. En hann mun hafa sjálfdæmi um það hvaða þrír aðilar fara þarna inn og stýra Bankasýslu ríkisins, sem síðan, að öllu óbreyttu, mun stýra öllu bankakerfi landsins ef við gefum okkur að menn trúi því ekki að það verði af yfirtöku erlendra kröfuhafa á tveimur viðskiptabönkum, sem ég vona annars sannarlega að verði.

Nú skulum við gefa okkur að einhver annar fjármálaráðherra sé hér við völd en hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, að það sé einhver óvandaður stjórnmálamaður. Það getur gerst, það hefur gerst í mörgum löndum, og ég hef spurt stjórnarliða hvað standi í vegi fyrir því að fjármálaráðherra mundi skipa formann í stjórn Bankasýslu ríkisins, viðskiptaráðherra mundi skipa annan stjórnarmann og Seðlabanki Íslands hinn þriðja. Það væri þá alveg tryggt að það væri ekki einn aðili sem skipaði í Bankasýslu ríkisins sem mun hafa gríðarleg völd í þessu samfélagi á næstu árum, sérstaklega þegar kemur að því að menn muni einkavæða eða markaðsvæða mörg helstu atvinnufyrirtæki þjóðarinnar sem því miður eru komin undir umrædda banka. Við hljótum að deila þeirri framtíðarsýn að við viljum að einkaframtakið verði ríkjandi hér á landi, að það verði ekki ríkið sem muni ákvarða allt, en ég hef verulegar áhyggjur af því.

Segjum sem svo að nýr fjármálaráðherra taki hér við, hann vilji sínu fólki hvað best og að flokksskírteini manna fari aftur að skipta máli hér á landi. Ég hélt á grundvelli þeirrar reynslu sem við höfum fengið að við værum sammála um að við vildum hverfa frá þessu. Verið er að staðfesta það með lagasetningu Bankasýslu ríkisins að einn maður, fjármálaráðherra Íslands, mun hafa algjört vald yfir því hvaða aðilar verða skipaðir í stjórn þessa félags, og ekki bara formaður ráðsins heldur öll stjórnin.

Við höfum talað fyrir því og beðið hv. þingmenn í stjórnarmeirihlutanum að koma til móts við þessi sjónarmið, ekki bara sem við þingmenn Framsóknarflokksins og fleiri í stjórnarandstöðunni höfum í þessu máli heldur sem fleiri umsagnaraðilar úti í þjóðfélaginu hafa haft fram að færa. Ég hélt að við hefðum talað fyrir því í aðdraganda síðustu kosninga og sérstaklega eftir þær að nú væri loksins tími samræðustjórnmálanna runninn upp, að við hefðum hafnað þessum meirihlutastjórnmálum þar sem meirihlutaflokkarnir knýja allt fram og hlusta ekki á þær ábendingar sem aðilar úti í samfélaginu og stjórnarandstaðan hér á þingi hafa haft fram að færa. Mér hefur nú sýnst í öllu þessu bankahruni að hæstv. ríkisstjórn hefði betur hlustað á aðvaranir úti í samfélaginu, á ráð aðila utan stjórnarinnar, þ.e. þá sem eru hér í stjórnarandstöðu, en ekki bara að ákveða alla hluti sjálf og láta allar aðrar skoðanir sem vind um eyru þjóta.

Við lifum á þeim tímum þar sem tveir flokkar, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin, ráða einfaldlega ekki við stjórn efnahagsmála í landinu. Það þurfa fleiri að koma hér að og þessir tveir flokkar þurfa að fara að hlusta meira út í samfélagið og meira að segja á fulltrúa annarra flokka hér á þingi, á tillögur þeirra og ráð. Þetta er ástand þar sem við verðum að taka höndum saman sem einn maður til þess að reisa Ísland upp frá því efnahagslega hruni sem blasir við okkur í dag. Það er ekki á forræði tveggja flokka í þessu landi að takast á við þetta verkefni og allra síst þessara tveggja flokka.

Frú forseti. Ég mundi gjarnan vilja fá það á hreint hér að lokum í þessari umræðu hvort hv. þingmenn, og þá beini ég því til formanns og varaformanns viðskiptanefndar sem sitja hér í salnum, telji að það sé alveg ljóst hver valdmörkin verða á milli stjórnar Bankasýslunnar og bankaráðanna. Getur verið að það megi hagræða í ríkiskerfinu með þeim hætti að við séum ekki með stjórn Bankasýslunnar, sem mun kosta 400–500 milljónir á næstu fimm árum, og síðan með alls konar bankaráð og stjórnir í fjármálafyrirtækjum undir hatti hins opinbera? Hvað er umsýslukostnaður hins opinbera orðinn mikill yfir öllu fjármálakerfi hins opinbera? Má ekki leita leiða til þess að draga saman útgjöld í þessu?

Hér er verið að leggja til, verði þetta frumvarp samþykkt, útgjöld íslenskra skattgreiðenda upp á 400 millj. kr. á næstu fimm árum. Kannski eru 400 millj. kr. varlega áætlaðar, það má gera ýmislegt fyrir þá peninga og ég vil minna á að ríkisstjórnin hefur staðið í óvinsælum niðurskurðaráformum, þá kannski sérstaklega gagnvart eldri borgurum, öryrkjum og námsmönnum, og það er eðlilegt að við spyrjum hér: Í stað þess að auka yfirstjórnunarkostnaðinn hjá hinu opinbera er snertir umsýslufjármálastofnanir hins opinbera um 400 millj. kr., stendur virkilega ekki til að draga saman seglin í þessu eins og við þurfum að gera annars staðar í þessu þjóðfélagi?

Maður veltir því líka fyrir sér í ljósi allra niðurskurðaráformanna þessu tengt hvað tefji það að endurskipuleggja Stjórnarráð Íslands með því að fækka ráðherrum til að mynda um tvo. Það eru um 80–100 milljónir sem mætti spara á því, en það er ekki hlustað á það. Þrátt fyrir að við hvetjum hér ráðherra í hæstv. ríkisstjórn til þess að skera niður var fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar að fjölga ráðherraembættum um tvo. Síðan koma jafnvel sömu ráðherrar og segja: Nú skulu opinberir starfsmenn og aðrir í hinu opinbera kerfi gjöra svo vel og að skera niður — á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn byrjar ekki einu sinni heima hjá sér heldur gefur í og fjölgar ráðherraembættunum.

Það er eðlilegt að við spyrjum þegar við tölum um hæsta lagið í rekstri hins opinbera, yfirstjórn fjármálakerfisins í landinu og yfirstjórn ríkisins, sjálfa ríkisstjórnina: Af hverju í ósköpunum gilda þessi lögmál ekki um ráðuneytin og yfirstjórnirnar þegar við horfum á það að menn leggja hér fram frumvörp um aukin ríkisútgjöld á meðan verið er að spara hjá námsmönnum, eldri borgurum og öryrkjum? Við hljótum að spyrja hvers lags forgangsröðun þetta er hjá núverandi stjórnarflokkum, það er eðlilegt að spurt sé. Ég vænti þess að formaður og varaformaður viðskiptanefndar komi hér upp og útskýri þá framtíðarsýn sem þeir hafa í þessum málum því að við erum hér að tala um mikilvægt mál. Við erum að tala um það hvernig við byggjum upp til framtíðar og skipuleggjum bankastarfsemina í landinu. Sjálfur hefði ég kosið að fleiri en einn maður, sjálfur hæstv. fjármálaráðherrann, hefði fengið að skipa í stjórn þessarar Bankasýslu vegna þess að Bankasýsla ríkisins verður ein valdamesta stofnun landsins. Hún mun hafa gríðarleg völd og mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna stjórnarliðar leggja áherslu á að þessi stjórn verði skipuð af einum manni en ekki til að mynda af hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. viðskiptaráðherra og Seðlabankanum sjálfum, móðurbankanum. Hvað kemur í veg fyrir það og hvað er annarlegt við það að hafa það með þeim hætti að fleiri en einn aðili skipi í þessa stjórn, með fullri virðingu?

Ég vara við þeirri leið sem stjórnarflokkarnir eru á í þessu efni. Þegar ég kem hér upp og spyr hæstv. fjármálaráðherra og stjórnarliða um hvort til standi að hafa ríkisrekið atvinnulíf og hvort það eigi ekki alveg örugglega að skilja á milli annars vegar stjórnmálanna og hins vegar atvinnulífsins, fæ ég alltaf sömu svörin: Það á ekkert að ríkisvæða atvinnulífið og það á ekkert að blanda saman einhverri pólitík og atvinnulífinu. En ég spyr: Þegar pólitískur ráðherra mun einn skipa stjórn Bankasýslu ríkisins sem mun fara með eignarhald — segjum sem svo að þetta verði að lögum á morgun — þeirra fjármálafyrirtækja sem hafa yfir 90% markaðshlutdeild og að þrír einstaklingar verði í stjórn Bankasýslunnar, sem hæstv. ráðherra hefur sjálfdæmi um að skipa í, er ekki einhver hætta á því að stjórnmál og íslenskt atvinnulíf fari að blandast um of mikið saman, sem allir úti í samfélaginu vara við í dag?

Það eru einungis örfáir áratugir síðan menn fengu húsnæðislán á grundvelli flokksskírteinis. (Gripið fram í: Eða bankalán.) Við skulum ekki hverfa aftur til þeirra tíma. Ég vil trúa því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sé komin hér á þing til þess að byggja upp nýtt Ísland. Ég hef ekki orðið var við marga stjórnmálamenn eða aðila utan úr samfélaginu sem eru ósammála þessum málflutningi. Þess vegna spyr ég að lokum, vegna þess að tími minn er liðinn: Hvers vegna í ósköpunum ætlum við þá að feta aftur á þá braut í stað þess að láta fleiri en einn aðila, einn pólitískan stjórnmálamann, skipa í stjórn Bankasýslu ríkisins? Af hverju máttu það ekki vera þrír aðilar að skipa í stjórn þessa apparats sem verður eitt það valdamesta í íslensku samfélagi? Samt vona ég við lok ræðu minnar að þetta fari allt vel og að allt muni blessast hjá okkur, (Forseti hringir.) en ég hefði gjarnan viljað að stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi hefði hlustað meira á okkur í stjórnarandstöðunni og (Forseti hringir.) meira á umsagnaraðila í þessu máli.