137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það var hressilegt að hlusta á hv. þm. Birki Jón Jónsson fara yfir þetta mál og hann er búinn að taka virkan þátt í störfum viðskiptanefndar á síðustu vikum. Það var áhugavert að heyra hann tala um það sem ég verð að gangast við að ég hættur að nenna — ég er búinn að reyna það frá því að ég byrjaði í viðskiptanefnd, alveg frá því að þing kom saman — þ.e. að reyna að sannfæra meiri hluta viðskiptanefndar um að stunda þau vinnubrögð sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson vísaði til. Ég hélt að við hefðum öll lært af því og ég hélt að vísu að það stæði eitthvað á bak við orð hv. Álfheiðar Ingadóttur þegar hún stóð upp sem stjórnarandstöðuþingmaður og fór oftar en ekki mikinn um það að nú væri meiri hlutinn að valta yfir minni hlutann og var það oft af ansi litlum tilefnum í samanburði við þau vinnubrögð sem viðgangast í viðskiptanefnd núna. Það er hv. þm. Birkir Jón Jónsson að upplifa á eigin skinni og hann viðhafði þess vegna þessi orð hér eins og allir þeir sem eru í minni hlutanum hafa viðhaft um vinnubrögð meiri hluta viðskiptanefndar af góðri ástæðu. (ÁI: Ótrúlegur málflutningur.) Hér kalla fyrrverandi formaður og varaformaður viðskiptanefndar fram í og finnst þetta ekki vera maklegt en einhverra hluta vegna er það ekki bara sá sem hér stendur sem hefur viðhaft þessi orð. Einhverra hluta vegna er það hver einasti þingmaður sem er í minni hluta í viðskiptanefnd sem hefur rætt þetta mál. (Gripið fram í: Þú hlustaðir ekki á ræðu Ragnheiðar E. Árnadóttur.) (Gripið fram í: Hvað sagði ég nú?) Það er einmitt núna þegar, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson benti réttilega á, við erum með þessi stóru verkefni. Ég held að vísu í það minnsta fyrstu dagana eftir að þing kom saman eftir kosningar hafi menn verið einarðir í því að vinna saman, koma í veg fyrir þau mistök sem gerð hafa verið því að það hafa verið gerð mistök án nokkurs vafa þegar menn hafa unnið hlutina of hratt, án nokkurs vafa. Ég held t.d. að þegar menn gengu frá lögum í tengslum við tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar að þeir hefðu betur farið yfir það mál árið 1999. Að vísu sem betur fer felldu menn tillögur Vinstri grænna og Samfylkingarinnar um að bæta í innstæðutryggingarnar og væri ástandið vægast sagt skelfilegt ef menn hefðu samþykkt það. Það var þáverandi hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi hæstv. forsætisráðherra, sem flutti tillögur ásamt, ef ég man rétt, hæstv. heilbrigðisráðherra, hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að bæta verulega í og hafa mun hærri innlánstryggingar en síðan var samþykkt að hafa og var það víst alveg nóg. Hér erum við að ræða um hvorki meira né minna en uppbyggingu bankakerfisins þannig að það er ekkert smámál á ferðinni og á þessum nokkrum dögum, kannski vikum sem þetta mál er búið að vera til umfjöllunar, það hafa orðið grundvallarbreytingar á forsendum. Þegar við ræddum þetta fyrst, hvað var þá verið að ræða? Það var verið að ræða að setja Kaupþing, Glitni og Landsbankann undir eignaumsýsluna og eignaumsýslan er samþykkt, virðulegi forseti. Gert er ráð fyrir því að ríkið taki yfir alla bankana. Það er forsendan fyrir eignaumsýslunni. Síðan var í miklum hraða — og það er athyglisvert — keyrð í gegn löggjöf um ríkisvæðingu sparisjóðanna. Af hverju var það gert? Hér stóðu stjórnarliðar og kölluðu hátt að þetta væri mínútuspursmál fyrir sparisjóðina. Það þyrfti að hefjast handa einn, tveir og tíu. Og ætlaði einhver þingmaður að vera á móti því eða tefja að hægt væri að bjarga sparisjóðunum? Það væri gott að fletta upp hvenær þetta var samþykkt. (Gripið fram í.) Það er áhugavert að fá að vita hvað búið er að gerast síðan þá því að þetta var mínútuspursmál. Hér var virkilega gengið að stjórnarandstöðunni þegar stjórnarandstöðuþingmenn ræddu þetta í nefndinni, sömuleiðis í þingsalnum, hvort þeir ætluðu að bera ábyrgð á því að tefja fyrir endurreisn á sparisjóðunum því að þetta væri (Gripið fram í.) mínútuspursmál. Núna erum við komin í þá stöðu, nema það hafi gleymst að segja frá því, að það hefur ekkert gerst í þeim málum. Það er allt þetta tal um mínútuspursmálið, klukkutíma eða hvað það nú var, og öll þessi gífuryrði um það hvort stjórnarandstöðuþingmenn — og það var nefnt nafn, hvort hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var ekki nefndur — hvort hann ætlaði virkilega að vera eitthvað að tefja þetta mál þegar hann hélt lærðar ræður og var ekki tilbúinn frekar en ýmsir aðrir að fylgja málinu eftir. Spurt var hvort hann ætlaði virkilega að hafa það á samviskunni að tefja málið. Það kemur í ljós að það stendur ekkert á bak við þetta, ekki neitt.

En sparisjóðirnir áttu að vera undir líka. Nú tek ég eftir því að bæði formaður og varaformaður viðskiptanefndar yfirgefa salinn — að vísu ekki varaformaðurinn, hann sneri við og settist aftur niður og er það vel. (REÁ: 10. júlí.) En hér bendir hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir mér á að 10. júlí var sparisjóðsfrumvarpið samþykkt og menn máttu alls ekki taka lengri tíma í það af því að það lá svo gríðarlega á. Sama er hér upp á teningnum, virðulegi forseti.

Hér var farið af stað með mál, Bankasýslu ríkisins. Þar áttu Kaupþing, Glitnir, Íslandsbanki, Landsbankinn að vera undir eignaumsýslunni sem væri í tengslum við þessa þrjá ríkisbanka og sparisjóðina en nú eru forsendur algerlega gerbreyttar. Mun það breyta einhverju hjá störfum meiri hlutans? Nei, nei, nei. Þetta verður keyrt í gegn, virðulegi forseti, og öll orðin sem hér voru viðhöfð um ofbeldi meiri hlutans við minnsta tilefni þegar þessir aðilar voru í stjórnarandstöðu eru að sjálfsögðu löngu gleymd og við í viðskiptanefndinni fáum að finna fyrir því hvar valdið er. Það er hjá meiri hlutanum og þar hika menn ekki við, frekar en í sparisjóðafrumvarpinu, að standa í þingsal og segja að það liggi svo gríðarlega á af því að það sé svo mikið undir og þetta sé allt að því mínútu- eða klukkustundaspursmál.

Nú er ekki langt liðið á lífdaga þessarar ríkisstjórnar en það er komið í ljós, virðulegi forseti, að þetta er ein vanhæfasta ríkisstjórn sem Ísland hefur haft og við erum núna, nokkrum vikum eftir kosningar — ætli það séu ekki einhverjir þrír mánuðir þegar menn fóru af stað með flugeldasýningu, gerðu stjórnarsáttmála sem lofaði öllu milli himins og jarðar — strax komin í stjórnarkreppu því að það er ekkert annað sem er í gangi hér og það vita það allir sem eru þingmenn að sú staða er uppi og það vita allir landsmenn að þetta er komið í það horf. Við erum búin að vera í þrjá mánuði á þessu sumarþingi og ég veit að það er ekki einn einasti þingmaður, ekki einn sem var ekki til í að leggja þess vegna allt sumarið og allt árið og næstu ár undir mjög mikla vinnu. Til þess var fólk kosið. En stjórnleysið hefur verið algert og aldrei hefur ástandið verið alvarlegra en nákvæmlega núna. Enn og aftur eru menn að reyna að berja í brestina í stjórnarsamstarfinu, í þessu tilfelli í Icesave-málinu, og því miður, eins og menn þekkja, hefur ríkisstjórnin haldið þannig á því máli að hún hefur gert erfitt mál enn þá erfiðara.

Við þessar aðstæður ætla menn samt sem áður ekki að hvika frá áformum sínum. Menn ætla að keyra þetta mál í gegn með góðu eða illu eins og öll mál sem „dúkka“ upp á borð viðskiptanefndar. Bankasýslan ætti ekki í rauninni að heita Bankasýsla, hún ætti að heita Landsbankasýsla. Eins og staðan er núna miðað við þær áætlanir á að kosta 100 millj. á ári eingöngu sjá um Landsbankann. Eignaumsýslan verður ekki eins og lagt var upp með, það er algerlega ljóst, ef áætlanir ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga. Það skal þó tekið fram að það er ekki einu sinni búið að stofna eignaumsýsluna þótt búið sé að ganga frá lögunum og ég trúi því ekki að þegar menn eru búnir að keyra þetta mál í gegn með ofbeldi að menn muni stofna Landsbankasýslu. (Gripið fram í.) Menn ætla bara að hafa það í handraðanum, menn ætla bara … (Gripið fram í.) — Já, frumvarp upp í hillu, þetta er orðin ansi myndarleg röð hjá fjármálaráðherra, (Gripið fram í: Óstofnuð hlutafélög.) óstofnuð ríkisfélög sem maður getur gripið til þegar vel liggur við. Virðulegi forseti. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð og það er ekkert sem kallar á að klára þetta núna, nákvæmlega ekki neitt. Það segir eitthvað um það hvernig þessi ríkisstjórn forgangsraðar þegar það eina sem ríkisstjórnin getur komið sér saman um þegar kemur að sparnaði er, eins og komið hefur fram hér, að taka á þessum viðkvæmu velferðarmálum. Það er hægt að ná samstöðu um það. Þessir tveir vinstri flokkar geta náð samstöðu um það og að stofna ríkisfyrirtæki í „lange baner“ sem kosta að lágmarki í þessu tilfelli 100 millj. á ári þrátt fyrir að það sé alveg ljóst að ef áætlanir ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga þurfum við ekki á þessu ríkisfyrirtæki að halda, í það minnsta verður uppleggið allt annað.

Ég veit alveg hvaða verkefni er fram undan og ég get alveg upplýst það ef einhver er ekki með það á hreinu, virðulegi forseti, að það mun muna um hverja einustu milljón, í rauninni hvern einasta 100 þúsund kall þegar tekið verður á þessum viðkvæmu velferðarmálum. Ég mundi því ætla að menn væru ekki í einhverjum gassagangi að bæta í það minnsta 100 millj. í ríkisstofnun sem er algerlega ljóst að ekki er þörf fyrir miðað við þær áætlanir sem eru í gangi núna og ganga vonandi eftir og var ekki einu sinni þörf fyrir þó svo að menn þurfi að sitja uppi með alla bankana.

Það hefur komið fram og liggur alveg fyrir að ef menn setja þessa Landsbankasýslu á stofn er ekki skýrt hvert hlutverk bankaráðanna og þessarar umsýslustofnunar verður. Auðvitað hlýtur maður að spyrja sig: Til hvers eru menn með bankaráð yfir einum banka og síðan heila stofnun yfir banka? Nú er það ekki þannig að það séu ekki stór ríkisfyrirtæki í landinu. Landsvirkjun er t.d. mjög stórt fyrirtæki. Eigum við von á Landsvirkjunarsýslu úr því að menn geta töfrað fram 100 millj. hér og þar á fjárlögum? Er ekki sjálfsagt að setja á fót Landsvirkjunarstofnun? Það eru nákvæmlega sömu rök og það er undarlegt og segir okkur að á bak við allan fagurgalann hjá vinstri flokkunum um hversu mjög þeim er umhugað um velferðina, hve þeim er umhugað um þá sem minnst mega sín, er þetta forgangsröðin. Það er ekki hik á vinstri flokkunum, 100 millj. í Landsbankasýslu, ekkert mál. Þeir fóru af stað með þetta, áttu að vera þrír ríkisbankar, sparisjóðirnir um eignaumsýsluna. Nú er allt önnur staða uppi, hugsanlega verðum við með einn ríkisbanka og hefur lítið sést af yfirtöku á sparisjóðunum, enda er það þannig að fulltrúar meiri hlutans hafa þrætt mjög fyrir það að ætla að taka yfir sparisjóðina. Eignaumsýslufélagið átti síðan að taka á verkefnum og fyrirtækjum hjá öllum þrem ríkisbönkunum. En við erum búin að sjá að hér eru þessar forsendur algerlega gerbreyttar en hrokinn í meiri hlutanum í viðskiptanefnd er slíkur að það skiptir engu máli. Og ástæðan fyrir því að ég endurtek þetta hvað eftir annað er að hér munum við eftir nokkrar vikur sitja í mjög erfiðri fjárlagagerð þar sem hver einasti þingmaður, ég leyfi mér að fullyrða það, mun gera allt til að vernda það velferðarþjóðfélag sem við höfum. Ég trúi því að menn reyni að finna allar leiðir til að halda uppi því þjónustustigi sem við höfum í heilbrigðismálum, í menntamálum og í félagsmálum. Menn munu reyna að finna leiðir til að viðhalda uppbyggingu samvinnumannvirkja og öllum þeim þáttum sem við erum algerlega sammála um að þurfi að hlúa að, öryggismálum, löggæslumálum. Og ef einhver hv. þingmaður heldur að þetta verði auðvelt skal ég útskýra það fyrir viðkomandi hv. þingmanni að svo verður ekki. Af þeirri ástæðu einni mundi maður ætla að fulltrúar, hv. þingmenn, sem styðja þessa ríkisstjórn mundu leyfa sér í ljósi gerbreyttra aðstæðna, að staldra aðeins við og skoða málið betur sem kallað hefur verið eftir af ýmsum aðilum og er augljós skynsemi í einfaldlega vegna þess að við vitum ekki — allir eru sammála um það — hvaða staða verður uppi eftir nokkrar vikur. Maður mundi staldra við þótt ekki væri nema af þeirri ástæðu einni að þarna værum við að lágmarki 100 millj. sem við gætum notað í annað.

Það eru að vísu líka allir sammála um það að kostnaðurinn verður miklu meiri en 100 millj. en látum það liggja á milli hluta, höldum okkur bara við þá áætlun sem er til staðar, 100 millj. á ári. Ef þeir þingmenn sem munu keyra þetta í gegn eru þeir ekki bara að gera sig seka um að vinna mál með óskiljanlegum hraða, vegna þess að það er ekkert sem kallar á að þetta verði gert núna, ekkert. Þeir segja líka með þessu hvernig þeir vilja forgangsraða. Ég hef starfað á ýmsum vettvangi, ekki bara á þinginu, ég hef verið í borginni líka, ég hef verið í bæjarmálum í litlu bæjarfélagi og oftar en ekki, og þannig er það alltaf í lífinu, eru ekki endalausir fjármunir til. Og ég verð að viðurkenna að það hvarflaði ekki að mér eina mínútu þegar þessar gleðifregnir komu annað en að menn væru að ná niðurstöðu í anda þess sem við höfum verið að leggja áherslu á. Og mér sýnist vera góð sátt milli þingmanna, að í stað þess að ríkisvaldið taki yfir alla bankana, komi kröfuhafarnir og taki þá tvo af þremur sem væri jákvæð niðurstaða, sýnist mér. Það hvarflar ekki að mér eina mínútu annað en að það fyrsta sem meiri hlutinn, sem mun stýra þessu erfiða verkefni, fjárlögunum, mundi segja: Við skulum aðeins hinkra hér. Nei, svo er ekki. Hvað sem tautar og raular ætla menn að loka þessu máli og gefa heimild fyrir enn einni ríkisstofnun sem ekki er þörf á og sem á að kosta 100 millj. Ég get alveg lofað ykkur því að þegar menn eru búnir að setja á fót ríkisstofnun verður erfitt að skera niður hjá viðkomandi stofnun og ég tala ekki um ef menn ætla að leggja hana niður.

Þessi gjörningur segir miklu meira en mörg orð um stefnu þessarar ríkisstjórnar. Sá háttur hefur verið hafður á í viðskiptanefnd — og þetta er orðinn einhver leikur frekar en eitthvað annað — að það er sagt að mál séu tekin inn á milli umræðna og það er svo sem alveg hægt en það breytir engu um niðurstöðuna, það breytir engu um hvaða rök koma fram í málinu, það skiptir engu máli. Nú er það reyndar þannig að þau sjónarmið sem hér hafa komið fram hafa komið fram hjá fleirum en fulltrúum minni hlutans. Ég held að líka flestir sem að þessu máli koma og sjá að menn leggja af stað með ríkisstofnun sem á að hafa þetta umfang, þrjá banka, sparisjóði og eignaumsýslu — að þegar forsendur gerbreytast eru viðbrögð flestra, ef ekki allra, á þann veg að það sé mjög mikilvægt að endurskoða þetta, bæði sjálfsagt og eðlilegt. Ég tala ekki um þegar nægur tími er til þess því að það er ekkert, við þekkjum það, ég fór yfir það áðan, að menn reyndu að nota það sem röksemd og gerðu það í þingsölum, fulltrúar meiri hlutans að það er hægt að keyra sparisjóðafrumvarpið hratt og vel í gegn og var það keyrt í gegn 10. júlí vegna þess að sparisjóðirnir biðu, héngu við húninn og þetta var allt mínútuspursmál. Núna — hvaða mánaðadagur er í dag, virðulegur forseti, 11. ágúst? Rúmlega mánuður. Það er augljóst að það lá ekki svona á eins og menn lögðu upp með, það er algerlega augljóst. Allt sem var sagt í þá veruna var ekki rétt. Stjórnarliðar veigruðu sér ekki við að veifa því, þeir veigruðu sér ekki við að reyna að gera sérstaklega landsbyggðarþingmenn og stjórnarandstæðinga tortryggilega, gera þeim upp þá skoðun að þeir væru að reyna að koma í veg fyrir að sparisjóðirnir yrðu endurreistir eins og við þekkjum þá, og ég þarf ekki að fara yfir þá umræðu í smáatriðum, þeir væru sérstaklega mikilvægir í hinum dreifðu byggðum. Á þá pólitísku strengi var spilað, frumvarpið var samþykkt 10. júlí með þeim rökum stjórnarliða að það lægi svo gríðarlega á, menn væru búnir að missa svo gríðarlega dýrmætan tíma af því að það átti að klára þetta fyrir 1. júní, ef ég man rétt, eða hvenær það var. Og allt var þetta bara tal til að losa sig við þessi þreytandi þingstörf, að því er virðist.

Ég hef ekki heyrt — það kemur kannski fram á eftir — um kröfu eða röksemdir frá fulltrúum meiri hlutans í þá veru að hér liggi eitthvað gríðarlega á en miðað við þær heimildir sem ég hef bestar hefur ekki komið fram neins staðar að það liggi á því að ganga frá þessu frumvarpi núna. Þvert á móti — það væri ágætt ef þeir sem þekkja betur til þess leiðrétti mig ef það er rangt — kom það fram hjá umsagnaraðilum að skynsamlegt væri að staldra við. Það er frekar augljóst og jafnvel þótt við sætum uppi með alla ríkisbankana og jafnvel þótt nauðsynlegt væri að setja þessa ríkisstofnun af stað er nægur tími til að ganga frá því í haust og svo sannarlega er þá tækifæri fyrir nefndina til að fara vel yfir þetta mál. En það er ekki sú aðferð sem þingmeirihlutinn viðhefur og hann hefur á sínum fyrstu mánuðum sýnt að það er ekki áhugi á því að starfa með þeim hætti, enda virðist það vera orðin nokkuð mikil regla að hlutirnir hafa snúist algerlega við frá því að þessir aðilar voru í stjórnarandstöðu. Það er örlítið lengra síðan að Samfylkingin var í stjórnarandstöðu en ekki voru minni yfirlýsingarnar í þá veru að það væri mikilvægt að menn mundu vinna saman að stærri og minni málum, það væri mikilvægt að fara saman yfir mál ef þannig stæði á. Það vantaði ekkert upp á yfirlýsingar frá Samfylkingunni þá þótt við þekkjum það að fyrir nokkrum mánuðum síðan töluðu Vinstri grænir með þeim hætti. En því skal líka haldið til haga að Vinstri grænir töluðu á þann veg að við ættum ekki að vera í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, það ætti alls ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu strax og það átti, held ég, að hætta við öll stóriðjuáform. Og ég man eftir umræðum í þinginu um ríkisfjármál í desember, það er innan við ár síðan, þar töluðu hv. þingmenn Vinstri grænna fjálglega um það hversu ábyrgðarlaust það væri að skera niður í ríkisfjármálum. Það er ansi erfitt að átta sig á því hvað er að marka forustumenn Vinstri grænna. Það er kannski frekar þannig að maður eigi að hlusta eftir því hvað forustumenn Vinstri grænna segja og leggja síðan þannig út frá því að þeir séu að meina algerlega öfugt við það sem þeir segja, sérstaklega í aðdraganda kosninga og sérstaklega í þingsölum.

Virðulegi forseti. Við erum búin að taka þessa umræðu í nefndinni, við erum búin að taka þessa umræðu í þingsölum og það bítur ekkert á meiri hlutann. Það er ljóst. Meiri hlutinn hefur valdið og meiri hlutinn ætlar að nota það vald, hann hefur gert það samviskusamlega og sýnt að það var í besta falli létt grín, talið sem viðhaft var fyrir nokkrum mánuðum síðan þar sem talað var um vinnubrögð og síðan eru menn núna að forgangsraða. Hér er verið að ganga frá ríkisstofnun sem ekki er þörf fyrir miðað við þær forsendur sem uppi eru núna, alls ekki, og það á að setja 100 millj. í fjárlögum í það. Það eru ákveðnar fréttir fyrir sjúklinga, eldri borgara og námsmenn og aðra þá sem nýta sér þá velferðarþjónustu sem við höfum byggt hér upp.