137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[15:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þetta breytir náttúrlega engu. Við skulum tala um þessa hluti eins og þeir eru. Yfirlýst markmið með þessu frumvarpi, með þessari bankasýslu, sem meiri hluti nefndarinnar hefur tönnlast á og ítrekað og endurtekið, er að færa valdið frá fjármálaráðherra, færa valdið frá pólitíkinni, færa þetta frá skrifborðshorninu í fjármálaráðuneytinu. Það er lykilatriði. En samt skipar ráðherra alla stjórnarmenn án tilnefningar en hv. þingmanni finnst frábært að við getum tekið um það umræðu í nefndinni hvort vel sé skipað. Hvaða brandari er þetta? Það færir enginn neitt vald frá einum eða neinum með því að ræða um það yfir huggulegum kaffibolla í viðskiptanefnd, það er bara þannig. Það breytir ekki neinu og það er nákvæmlega sama um hvaða hæstv. fjármálaráðherra er að ræða, það breytir alls engu. Ég vil ítreka spurninguna til hv. þingmanns: Finnst þér markmiðum frumvarpsins vera fullnægt með því að færa þetta frá pólitíkinni þegar þetta fer ekki lengra en þetta?

Síðan er annað sem ég hjó eftir í ræðu hv. þingmanns. Hann sagði: Atvinnulífið vill fara að fá svör um hvað á að gera í endurreisn bankakerfisins. Gott og vel, ég tek undir það. En atvinnulífið talaði í umsögnum sínum. Atvinnulífið talaði þegar fulltrúar þess komu sem gestir, líka Samtök atvinnulífsins, samtök fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráð Íslands. Þau sögðu: Þetta frumvarp er til óþurftar. Það á að bíða með það þangað til fyrir liggur hvert eigendahlutverk ríkisins er. (Forseti hringir.) Ef atvinnulífinu liggur svona mikið á að fá svör, af hverju fær það þá ekki þau svör sem það óskar eftir?