137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[15:49]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við stöndum frammi fyrir þeirri lykilspurningu að við viljum gera einhvern ábyrgan fyrir uppbyggingu bankastarfseminnar í þessu landi þegar hún er undir stjórn ríkisins að meira eða minna leyti. Frá því komumst við ekki. Við höfum legið yfir þessu í viðskiptanefnd og meiri hlutinn telur að besta fyrirkomulagið á þessu sé að ráðherra skipi stjórn Bankasýslunnar sem beri skipun stjórnarinnar undir viðskiptanefnd til umsagnar eða að tillögur hennar verði ræddar í viðskiptanefnd. Stjórn Bankasýslunnar skipi svo valnefnd. Sú valnefnd leggi til hvaða aðilar sitji fyrir hönd ríkisins í stjórnum banka eða bankaráða þannig að við erum þá komin með fjórar armslengdir af því fólki sem taka mun ákvarðanir í lykilmáli í atvinnulífi okkar. Er það nóg? Það veit ég ekki, það verður þá bara að koma í ljós og það er þá á verksviði okkar, löggjafans, að gæta þess að það sé nóg því að ekki viljum við að löggjafinn skipti sér af þeim ákvörðunum sem teknar eru í atvinnulífi okkar.

Ég tel hins vegar að lengra komumst við ekki að þessu sinni. Ég tel að við höfum reynt að tryggja það vel að pólitíkin leiki ekki mikilvægt hlutverk í atvinnulífi okkar að svo komnu máli. Við erum að setja fjármuni inn í þetta kerfi og þá þurfum við að hafa einhvern pólitískt ábyrgan fyrir þeim fjármunum sem þar fara inn. (Gripið fram í.) Ég tel þess vegna að mikilvægt sé að fjármálaráðherra sé þá ábyrgur fyrir því með beinum hætti. Ég tel að það form sem við höfum á þessu frumvarpi á lögum um Bankasýslu grípi það nokkuð vel.