137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[15:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þarna fór þingmaðurinn í skemmtilegan hring. Fyrst þurfti að skipa stjórnina til að reyna að gera einhvern ábyrgan. Viðskiptanefnd hefur legið yfir þessu og þetta var besta leiðin. Viðskiptanefnd var komin með ákveðna lausn á málinu sem meiri hlutinn var náttúrlega hrakinn til baka með vegna þess að hún samrýmdist ekki stjórnsýslunni. Við höfum rætt ýmislegt, t.d. ef þú ætlar að færa þetta frá pólitíkinni er það samt fjármálaráðherrann sem er ábyrgur á endanum. Ég skil ekki alveg hugsunina í þessu, fjármálaráðherra á ekki að skipta sér af þessu en hann á samt að skipa alla og vera ábyrgur. Þetta gengur ekki upp, virðulegur forseti.

Það sem hefði verið miklu hreinlegra er að viðurkenna að það er pólitík í þessu. Af hverju kjósum við ekki til að tryggja að það sé ekki einhver einn pólitíkus, í þessu tilfelli fjármálaráðherra, sem ber ábyrgð á þessu? Við vorum að kjósa í Seðlabankann, (Forseti hringir.) við vorum að kjósa í Þingvallanefnd og annað í dag. (Forseti hringir.) Af hverju var þá ekki hugað að því að láta alla stjórnmálaflokkana koma að þessu til (Forseti hringir.) að það yrði einhver pólitísk sátt um þessa hluti?