137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[15:55]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að vandamálið hafi einmitt kristallast í ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar sem mundi fylgja því ef við mundum skipa í stjórn Bankasýslunnar með þeim hætti sem hann leggur til. Hver ber ábyrgðina þegar einn fulltrúi í stjórn kemur frá einum ráðherra, annar frá hinum o.s.frv.? Ég held að það sé óráð. Ég held að það sé betra fyrir okkur — og það er mín skoðun — að það sé einn ráðherra sem skipi í stjórn þessarar Bankasýslu og hann beri þá einn ábyrgð á aðgerðum og ákvörðunum stjórnar því að það er þá væntanlega stjórnin öll sem mun taka allar lykilákvarðanir, ekki bara formaður stjórnarinnar. Ekki er það fjármálaráðherra sem ber þá ábyrgð á ákvörðunum allrar stjórnarinnar ef hún er skipuð af mörgum aðilum. Ég held því að það sé best og það er mín pólitíska sýn á þetta verkefni að það sé einn ráðherra sem beri heildarábyrgð á þeim ákvörðunum sem stjórn Bankasýslunnar tekur og það sé best að sá ráðherra sé fagráðherrann í þessu tilfelli.