137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[15:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Bankasýsla ríkisins verður valdamesta stofnun landsins þegar hún verður stofnuð. Finnst hv. þingmanni það virkilega eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra geti jafnvel skipað þrjá félaga sína í þessa stjórn sem munu hafa gríðarleg völd, eins og ég hef áður bent á? Finnst hv. þingmanni ekkert óeðlilegt, eins og við höfum bent á hér, að inn í þessa stjórn komi aðilar úr fleiri en einu ranni þannig að menn hafi eftirlit hver með öðrum? Það er mjög hættulegt þegar einn aðili, ef það færi þannig, skipaði þrjá félaga og kunningja í stjórn þessa félags, sem vel væri hægt ef nýr fjármálaráðherra kæmi að. (Gripið fram í.) Og við verðum að hafa lagasetningu frá Alþingi með þeim hætti að hún einskorðist ekki við persónu viðkomandi fjármálaráðherra heldur verðum við að vera viðbúin því að það versta geti gerst (Forseti hringir.) og ég er ansi hræddur (Forseti hringir.) um að slíkt gæti gerst.